31. janúar 2007

Snúllinn flytur


Nú er komið að því, litla fjölskyldan er að flytja! Það gerist á morgun og föstudaginn. Mikið verður nú tómlegt hérna hjá okkur afa og Guddu þegar þau verða farin. En ætli maður verði ekki eins og grár köttur til að byrja með heima hjá þeim. Svo fær amma nú það hlutverk að sækja snúllann til dagmömmu og vera með hann þangað til mamma hans er búin að vinna, en það verður ekki fyrr en í mars. Óska ég þeim bara góðs gengis á nýjum stað og ekki sakna mín of mikið!!!
Amma kveðjur

30. janúar 2007

Upprennandi íþróttakona!


Það er ánægð stelpa sem hampar hérna verðlaunapeningnum sem hún hlaut á Stórmóti ÍR um þar síðustu helgi. Hún keppti í 60m hlaupi, 600m hlaupi, hástökkvi og kúluvarpi. Allir fengu verðlaunapening. Mótið var mjög vel skipulagt og eiga mótshaldarar heiður skilið, það voru 535 skráðir á þetta mót og hlýtur það nú að vera Íslandsmet!
HANDBOLTI - HANDBOLTI - HANDBOLTI - HANDBOLTI
Í þessum pikkuðum orðum vorum við að tapa leiknum við Dani 41-42 og það var meira að segja framlenging því það var jafnt eftir 60 mín. Ohh greyin þeir voru svo svekktir en það þýðir ekki að gráta það. Þetta þýðir nú ekki að Danir hafi verið betri en við. Við vorum bara óheppin.
Já svona eru íþróttir, gleði og grátur til skiptis.........
En þá er komið að háttatíma hjá ömmu gömlu, á eftir að lesa eina litla smásögu í íslensku áður en Óli lokbrá kemur í heimsókn.
Þangað til næst........bless bless

29. janúar 2007

Breytingar á heimilinu

Nú líður að því að litla fjölskyldan sem hefur búið og stækkað með okkur síðasta árið, flytur í nýtt húsnæði í uppi í Breiðholti. Þetta hefur í för með sér miklar breytingar fyrir okkur sem hér búa og þó ekki síður fyrir þau að komast út af fyrir sig og geta verið í friði fyrir afskiptasömum foreldrum og littlu syss sem öllu ræður.
Þeir sem eftir eru (6 st. með kettinum) verða þó að reyna að aðlagst því að ráfa um í fámenninu hér innandyra. Eitt er víst að það á eftir að labba oft í Breiðholtið (ca. 30 mín) að skoða litla kút og fylgjast með honum vaxa úr grasi. Við óskum þeim alls hins besta á nýjum stað.

Bahamas Harley D.



Nú var okkur að berast myndir úr ferðinni sem við fórum í Karabískahafið í nóvember. En þá fórum við í smá mótorhjólaferð með Völla Snæ á Harley D. um Bahamas. Það sem var meðal annars merkilegt við það var að við vorum þrír á hjólinu í einu og keyrðum um alla borgina þannig og vöktum athygli. Elfar hjá JBB tók myndirnar af okkur á hjólunum og kann ég honum bestu þakkir fyrir, ein þessara mynda birtist hér með til sönnunar. Þetta var ekki það eina sem við gerðum þennan daginn og má minnast á að við fórum á hraðbát og silgdum á fullri ferð með ströndinni og Völli kafaði eftir krossfiski sem var á stærð við fartölvu. Það var einnig minnisstætt hvað sjórinn er tær og fallegt að sigla á milli húsanna á kanalinum. Það er alveg örugglega gott að vera þarna til lengri tíma og maður fékk svona míní "Cape town" fíling, en staddur í Freeport.

28. janúar 2007

Friðrik flytur heim

Nú er komið að því hjá Friðrik bróðir að koma heim eftir margra ára dvöl í Þýskalandi. En hann hefur lokið námi og var boðinn vinna við sitt hæfi hjá Línuhönnun á Suðulandsbrautinni.
Hann segist hlakka til að takast á við þau verkefni er bíða hans á nýjum vettvangi og óska ég honum alls hins besta þar.
Friðrik vantar íbúð til leigu og ef þið vitið um eitthvað við hæfi þá væri gott að fá að vita af því en hann flytur skömmu eftir mánaðarmótin janúar febrúar.

25. janúar 2007

Alveg brjál.......

Já ég verð nú ekki oft kjaftstopp og pínu reið en í dag gerðist það. Fór með jeppann á verkstæði í gær því bremsurnar hafa verið eitthvað skrítnar síðan í frostakaflanum mikla um daginn, greyið hann er búinn að fá að vera inn í bílskúr í nokkra daga til að afþíða hann, en nei nei ekkert bráðnaði af þeim (bremsunum) svo það varð sem sagt að fara með hann í viðgerð. Úfffffff ég er nú eiginlega ennþá í sjokki, aðeins nettar 68 þúsund spesíur þurfti ég að punga út fyrir viðgerðinni! Ég er greinilega mjög dugleg á bremsunni, því diskarnir voru eins og dagblað þeir voru orðnir svo þunnir...........Spurning hvort maður verði að vinna baki brotnu fyrir þessu :-(

Svo er náttúrulega handboltinn að tröllríða öllu þessa dagana, spennan eykst með hverjum deginum, enda eru þessir drengir alveg ótrúlegir. Ég vorkenndi þeim nú alveg rosalega eftir tapið við Úkraínu, leið örugglega jafn illa og þeim ef ekki verr. En með hverjum leik sem þeir hafa unnið hefur mér liðið aðeins betur. Er samt búin að taka eftir því að við hvern leik sem "við" strákarnir spilum þá er ég að fá auka hjartslátt og svo er blóðþrýstingurinn örugglega mjög hár, á ekkert tæki til að mæla hann, finn bara hvernig ég verð öll eitthvað skrítin í kroppnum. Kannski er þetta gleðivíma;-)

Nú er allur snjór nánast horfin á höfuðborgarsvæðinu, einstaka skafl eftir þar sem bæjarstarfsmenn hafa mokað í hauga. Æi hvað það verður allt eitthvað grátt og grámyglulegt þegar hann er ekki blessaður snjórinn, vill hann miklu frekar en rigningu.

Það er greinilegt að ég hef ekki verið haldin ritstíflu í dag, hefði getað skrifað miklu meira, en þar sem handboltinn er eftir smá stund, ÍSLAND-PÓLLAND þá ætla ég að setjast fyrir framan imbann og horfa á leikinn og kannski mar narti í prins póló með.

ÁFRAM ÍSLAND

16. janúar 2007

Áhugamál allra!

Er ekki óhætt að segja að veðrið sé áhugamál okkar Íslendinga? Að minnsta kosti þorra landamanna. Það er til umræðu hvert sem maður fer, alls staðar er fólk að tala um veðrið. Enda er það svo margbreytilegt, væri sennilega hundleiðinlegt ef það væri alltaf sól og hiti. Ég hef prufað að búa í sól og hita og maður fær leið á því, hverjum gæti þótt leiðinlegt í sól? Jú mér fannst það, var orðin leið á þessu og hefði sko alveg viljað fá smá rigningu annað slagið, það kom jú reyndar rigning en það var nú bara svo lítið að það tekur því ekki að tala um það. Einu sinni kom snjór í næsta þorpi sem er í rúmlega 300km fjarlægð og börnin úr mínum bæ voru keyrð þangað uppeftir til að sjá snjóinn. Eflaust þætti okkur þetta líka stórviðburður ef það snjóaði aldrei hérna, heldur væri bara alltaf endalaus sól og hiti. Núna sér bara ekki fyrir endann á kuldanum, kuldi eins langt og auga veðurfræðingsins sér, hvort er nú betra að hafa rigningu eða snjó? Mér persónulega finnst betra að hafa snjó, það verður allt miklu bjartar yfir að líta, eins og t.d. núna er ekki komið svartamyrkur og kl. rétt rúmlega fimm.

Í Svíþjóð þarf fólk að glíma við það rafmagnsleysi oft á tíðum, þetta er vegna þess að ef það kemur óveður þá eru trén fljót að brotna og lenda þá á rafmagnslínum. Ég vorkenni oft litlu syss en hún býr í Svíþjóð þar sem þetta er ansi oft að gerast, og í rafmagnsleysi fara nefnilega þjófar á stjá og á heimasíðunni hennar er hún að tala um þetta vandamál. Man bara ekki eftir því að það hafi verið rafmagnslaust hérna á höfuðborgarsvæðinu í langan tíma í einu, ef það fer af er það vegna þess að einhver gróf í sundur leiðslur. Þeir hjá OR eru þá fljótir að kippa þessu í lag aftur.

Jæja folks, læt þetta duga í bili um veður og rafmagnsleysi. Endilega kommentið hjá okkur og segið hvað ykkur finnst um þetta bull okkar afa.
Bless í bili
Amma gamla

12. janúar 2007

Starfsmenn án aðhalds

Hvað ætli það séu margir sem vinna hjá framleiðslu og þjónustuaðilum sem eru ekki beint tengdir eigendum? Þá er ég að hugsa um hópa eins og t.d. ríkisstarfsmenn, alþingismenn, bæjarstarfsmenn, starfsmenn verkalýðsfélaga, lífeyrissjóða og fl. einnig fyrirtækja sem þurfa bara að vera til og sína fram á kostnað og fá hann greiddan án mikils eftirlits frá þeim er verkið kaupir. Og er þá verkaupi t.d. bæjarfélag eða fyrirtæki sem er í vernduðu umhverfi og dettur manni þá í hug tryggingarfélag eða einokunar-úrvinnslufyrirtæki tengt landbúnaði.

Það er kanski fljótlegra að telja upp þá sem eru að vinna í samkeppni? Gaman væri að fá ykkar álit á þessum fjölda, en ég væri ekki hissa ef þetta er um 30-40% vinnuafls þar sem menntakerfið, heilbrigðisgeirinn, löggæsla, bæjarstarfsmenn, eru fjölmennar starfsstéttir.
Sem betur fer eru ríkisfyrirtæki seld og vonandi að þau endi ekki sem samráðsfélög þegar frá hverfur en það er bara bætt við á jötuna jafnóðum, sendiráðum og kostnaður ráðuneyta eykst stórlega og vegur upp það sem er lagt niður.
Já, sími og bankar seldir en þá er ríkið komið í virkjanir og álbrask, alveg örugglega eru ráðherrar og co ekki þeir aðilar sem best er treystandi til að fjárfesta með pengum annara og reka virkjanir. Enda farið af stað undir kjördæmis-söngnum "atvinnuleysi og við verðum að fá eitthvað vegna þess að hinir fengu síðast" Það kanski sást best á rekstri bankanna hjá þessum aðilum hvers þeir eru megnugir og svo þegar þessir ríkisstarfsmenn fóru að selja þá gleymdist t.d. listaverkasafn Landsbankans alveg og sýnir hvaða hug menn voru með við þessa sölu (dofnir eins og bensíntittir um hávetur).
Ekki má skilja þessi skrif sem svo að þetta sé slæmt fólk og nenni ekki að vinna, heldur liggur eðlismunur í þeirri starfsemi sem er í samkeppni og þeirra sem svífa um í verð-samráði eða undir eftirliti almennings með 4 ára kostningar sem aðhald.

Fyrir kostningar er ekki spurt um hvernig farið var með peninginn heldur:... hverju getur þú lofað mér. Verðsamráðið fer að ganga út á samráðið sjálft frekar en hagræðingu og hætta á að þau fyrirtæki líkist fljótt bákni þar sem aldrei þrengir að og hægt er að redda óþægindum eins og peningaleysi með hækkun á framlegð eða álagnigu t.d. um 1-2% á línuna og svo er bara svifið áfram á skýi og passa sig á að mæta á réttu fundina.

11. janúar 2007

Vetrarfærðin

Það hefur verið frekar erfitt að fara til vinnu frá Kópavogi til Þorlákshafnar þessa dagana og verður þá bara að fara fyrr af stað. Það sem kemur á óvart er að það er ekki búið að ryðja veginn um þrengslin 6:30 á morgnanna, en hins vegar eru aðalgötur Kópavogs þegar ruddar þegar ég fer af stað um kl 6.
En auðvitað er ekki alltaf snjókoma og suma morgna er er stjörnubjart eins og
i morgun og þá er gaman að reyna að sjá flottar stjörnur og í morgun var ég að reyna að finna þessa halastjörnu á himninum sem var í sjónvarpinu í gærkvöldi en hætti því þegar bíllinn var kominn út í kant og tók smá skrans, ég horði á veginn eftir það. Þegar komið er til Þorlákshafnar eru snjóruðningsmenn að hefja sín störf, greinilega ekki eins snemma á ferðinni þar.

Vetur og afmæli

Frumburðurinn 25 ára í dag, til hamingjuj með daginn snúllinn minn. Já þetta er fljótt að líða finnst eins og hann hafi fæðst í gær. En þetta hlítur að segja mér að ég sé að eldast sem mér finnst nú reyndar alveg stórfurðulegt, lífið rétt að byrja hjá mér........

Jæja skildi vera komin vetur á Íslandi?? Alla vega þá snjóar alveg rosalega mikið núna, þykk og falleg snjókorn, bara að það fari nú ekki að blása og skafa. Afhverju gat þetta ekki komið um jólin? Nú hljóta skíðamenn sunnanlands að gleðjast, kannski maður fari að gramsa í bílskúrnum og ath hvort hægt sé að grafa þau (skíðin) upp úr þykku lagi af ryki! Hef ekki stigið á skíði síðan sautjánhundruðogsúrkál......

Og auðvitað haga Íslendingar sér í umferðinni eins og það hafi aldrei fallið snjór á höfuðborgarsvæðinu. Sextán umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík á tveimur klukkustundum í dag eða frá klukkan tuttugu mínútur yfir tólf til tuttugu mínútur yfir tvö, sem betur fer öll minniháttar.

Jæja þá þarf amma gamla að fara á rúntinn og ná í Guddu á æfingu. Sí jú leiter........(nú verð ég skömmuð fyrir að sletta á síðunni hans afa en ég er lögleg, er nefnilega 1/2 kani hahahahaha).

9. janúar 2007

Myndir


Þá er loksins búið að finna út hvernig á að stofna myndaalbúm á netinum, allt hefst þetta með þolinmæðinni, hérna getið þið séð myndir sem voru teknar um jól og áramót. Annars allt gott að frétta úr Funalindinni, allt að komast í samt horf eftir jólahátíðina. Búið að koma jóladótinu í geymslu, gestirnir farnir til síns heima, og er þeirra er sárt saknað. Vilhelm er byrjaður í ungbarnasundi og fór amman og Guðrún að horfa á hann taka nokkrar dýfur. Skítakuldi hefur verið á klakanum og er spáð áframhaldandi kulda, kannski snjóar á morgun! Guðrún er byrjuð að æfa frjálsar aftur eftir smá hlé og var hún glöð í gær þegar hún kom heim af fyrstu æfingunni, hún kemur til með að æfa 2-3x í viku, kannski verður hún frjálsíþróttakona eins og mamma sín :-) Talandi um æfingar.....þá er ég(amman) búin að skrá mig í leikfimi hjá Báru, TT 1 og á nú að takast á við slen og keppi, mar verður jú að vera þokkalegur þegar sumarið kemur, ekki getur maður farið að ferðast með öll þessi aukakíló til útlanda, það stendur nefnilega til að eyða hluta af sumarfríinu í USA, Linda frænka er búin að bjóða okkur að koma í sumar og erum við búin að fá lánað hús sem hún á við fallegt vatn. Jæja það er komið að háttartíma hjá gömlu. Endilega skrifið comment og kíkið á myndirnar.

6. janúar 2007


Gamlárskvöld


Fínt partý og allir búnir að jafna sig. Mikið af gestum og komu meðal annars frá Afganistan, Ameríku og Svíþjóð. Svo var farið á Þingvöll á nýársdag.