31. maí 2007

Frábært veður

Loksins komið sumar, hitinn í morgun kl. 06:00 var 8°c sem er auðvitað alveg gífurlega mikið. Svo er spáin góð fyrir daginn í dag, kannski maður skelli sér í hjólatúr eftir vinnu, ekki get ég lengur farið á hestbak þar sem hesturinn er farinn í sveitina, snökkt, snökkt :-(
Eiginmaðurinn gerði stórkaup ársins í gær, fór og keypti 1 stk klesstann Volvo S80 sem hann ætlar að dunda sér við að gera upp þegar hann er ekki í vinnunni eða á hjólinu sínu. Þetta verður stórglæsilegur bíll þegar búið verður að laga hann. Ætli hann sé að senda mér dulin skilaboð með þessu??? Þarf að spyrja hann næst þegar ég hitti hann!

Þangað til næst..........amma kveður.

28. maí 2007

Helgin

Þetta er búin að vera stórfín helgi, veislan var mjög fín, mikið af kræsingum og mikið af fólki. Söknuðum Matta enda var 1 stk púðursykurterta í afgang, hefur það gerst áður?
Unga fólkið var mjög ánægt með daginn. Svo eru þau að leggja af stað austur á eftir. Á nú eftir að sakna þeirra, túttan kemur öllum í gott skap með sínu líflega fasi. Vona bara að hún geti komið annað slagið suður í heimsókn til að knúsa mömmu sína.
Set inn myndir á eftir, gæti tekið smá tíma þar sem ég hef ekki sett inn myndir í langan tíma.
En þangað til næst..............amma kveður.

24. maí 2007

Til hamingju....


Eins og ég lofaði þá er hérna komin mynd af Tinnu og Gumma sem var tekin í dag, það var Þórunn sem tók þessa mynd og sendi mér. Ég set örugglega ekki myndir inn fyrr en eftir laugardaginn en þá verður svaka húllum hæ hérna í Funalindinni. Fórum út að borða með þeim ásamt fjölskyldu Gumma sem kom að austan, við fórum á Askinn Suðurlandsbraut. Þar var alveg ótrúlega mikið af fólki, staðurinn var gjörsamlega stappaður. Maturinn var fínn, fengum ekki aðsvif þegar reikningurinn var greiddur.

Verð að fara að koma mér í háttinn þarf nefnilega að mæta til vinnu í fyrramálið, þó að Tinnu hafi nú fundist að við ættum öll að vera í fríi eins og hún! hehehehehe. Skrifa meira um helgina.
Þangað til næst...........amma kveður.

22. maí 2007

Hvað er málið með þetta veður?

Ég sem hélt að vorið væri í það minnsta komið, en nei í gærmorgun vaknaði maður bara upp við vondan draum, allt orðið hvítt, og þegar ég lít út um eldhúsgluggann og horfi á Esjuna er hún eins og að hausti en ekki vori, með snjó niður í miðjar hlíðar.

Stór dagur framundan hjá Tinnu og Gumma á fimmtudaginn. Þau útskrifast bæði frá Iðnskólanum í Reykjavík. Held svei mér þá að Tinna sé orðin pínku pons stressuð, hún sem á eftir að fara í neglur, vinna í 1 dag, kaupa skó - helst rauða, þrífa, baka og pakka niður því þau eru að flytja austur eftir helgi. Já svei mér þá hún hlítur að vera smá stessuð, ég finn meira að segja fyrir smá stressi þegar ég er að pikka þetta inn. En sem betur fer á þetta ekki allt að gerast fyrir fimmtudaginn, þau ætla að halda veislu á laugardaginn bæði fyrir fjölskyldu og vini. Verð nú bara að segja það að ég mjög stolt af minni stelpu, hún hefur staðið sig alveg rosalega vel í náminu, og auðvitað Gummi líka, má ekki gleyma honum. Til hamingju bæði tvö! Set inn myndir á fimmtudagskvöldið fyrir ykkur hin sem búið erlendis og komist ekki til að gleðjast með þeim.

En þangað til næst...........amma kveður.


12. maí 2007

Stór dagur

Í margs konar skilningi.

Risessa gekk um götur Reykjavíkur í dag og fórum við mæðgur í bæinn til að skoða hana. Hún er ótrúlega flott og mikill mannskapur sem fylgir henni. Mikið var um fólk í höfuðborginni til að fylgjast með henni. Þetta er franskur listahópur sem er hérna á vegum Listahátíðar.

Svo eru kosningar til alþingis eins og allir sem á Íslandi búa vita. Vona svo sannarlega að það verði breyting á, komin tími til! Er nú ekki viss hvort ég nenni að vaka til að sjá hvernig þetta fer. Fyrir ykkur sem eru ennþá óákveðnir geta getið farið inná www.xhvad.bifrost.is
Ég persónulega fór ekki eftir þessu, prufaði þetta og útkoman varð ekki mér í hag svo ég fór bara og kaus x.....................

Í dag er líka Eurovision mér finnst þetta vera að verða að einum stórum skrípaleik. Ég hef nú ekki hlustað á öll lögin sem taka þátt í kvöld, ég hef bara heyrt í austantjaldslöndunum sem komust upp úr undanúrslitunum, og ég er nú bara ekki að fatta þetta. Spurning hvort austantjaldsfólk sé upp til hópa með svo lélegt tóneyra og heyri ekki muninn á því hvort sungið er falskt eða ekki, skiptir greinilega ekki máli. Þá er spurning hvað er fólk að kjósa? Kannski klæðaburð keppenda? Ætla sko að horfa á keppnina og hneykslast á því hvað liðið er upp til hópa með illa syngjandi fólk.

En nú er nóg komið af bulli, ætla að fara að setja snakkið í skál og fara að koma mér í kósístöðu í sófanum. Þangað til næst amma kveður............

9. maí 2007

Riddari götunar.....


Er sem sagt komin af stað, það tók ótrúlega stuttan tíma að koma hjólinu saman. Frænkan kom með varahlutina frá USA 17. apríl. Síðan hefur afi verið í skúrnum, nema þegar hann hefur þurft að skreppa í vinnuna. Og merkilegt nokk hann er búinn að fara 3x að prufu keyra gripinn og það hangir ennþá saman. Miklu betra hjól og miklu meiri kraftur segir hann, veit nú ekki alveg hvað hann hefur að gera við meiri kraft, nóg var nú af kraftinum fyrir. Bara að passa að hanga á druslunni. Til hamingju með vel unnið verk afi!