24. janúar 2008

Kirtlarnir úr Guðrúnu


Nú hafa háls-kirtlarnir verið teknir úr henni Guðrúnu og verða ekki settir í aftur. Aðgerðin fór fram á St. Jósepsspítala og gekk bærilega. Hún verður heima nokkra daga til að jafna sig. Sigrún verður hjá henni en svo óheppilega vildi til að hún fékk ælupest og liggja þær því samann. Kanski hefur það haft áhrif að það er einhver pest að ganga á sjúkrahúsinu, en ég rak augun í að það var verið að vara við magapest og því ættu heimsóknir að vera takmarkaðar. Sigrún var þarna yfir nótt og gæti það hafa gert gæfumuninn. Pálmar er einnig heima óvinnufær um óákveðinn tíma, þannig að staðan er sú að ég og kötturinn erum ein með heilsu.

Út-af

Það er þekkt að vandrataður er hinn gullni meðalvegur. En ég var ekki að rata hann þegar ég varð fyrir því að Volvoinn flaut upp í krapa á þriðjudaginn og fauk út-af og stoppaði á kafi í blautum snjó. Stöðvunarvegalengdin var um 6 metrar og var ég á um 40-60km hraða þannig að það var nokkuð harkalega stoppað. Bíllinn er ekki samur á eftir og hefur verið lagður inní bílskúr til aðhlynningar um óákveðinn tíma. Svo nú hefur verið dustað rykið af Sonötunni og er hún brúkuð á milli í dag.

15. janúar 2008

Tíska

Fór í búðir í dag til að ath hvort ég sæi nú eitthvað flott á útsölunum sem eru í hverri búð þessa dagana. Við erum nefnilega að fara á árshátíð hjá minni vinnu um helgina og það er ekkert til í fatakápnum á frúna. Þegar ég fer í búðir til að skoða þá sé ég alltaf eitthvað sem mig langar í, læt það yfirleitt aldrei eftir mér að versla neitt nema ég nauðsynlega þurfi á því að halda. Sá t.d. fullt af flottum fötum fyrir jólin sem ég gat alveg hugsað mér að eiga, hugsaði samt með mér að ég færi nú bara á útsölurnar í janúar þegar þær byrja. En hvernig stendur á því að þá sé ég aldrei neitt sem mig langar í? Er búin að fara í allar helstu kvenfataverslanir á höfuðborgarsvæðinu en það eina sem ég hef upp úr þessu er svekkelsi og kannski eitt par af nælonsokkum!

Á reyndar eftir að fara á Laugarveginn, kannski ég fari inn í einhverja spútnik búðina þar og finna eitthvað sætt, málið er að ég vil ekki glamúrkjól sem ég get ekki tjúttað í, ég hef nefnilega agalega gaman að dansa og þar sem ég er nú frægur klunni þá sé ég mig ekki í anda í voða glamúrkjól, gæti t.d. stigið á hann
og dottið á hausinn.

Já gleymdi að minnast á eitt atriði í þessum búðum, og það eru skórnir sem maður getur farið í til að sjá heildarsvipinn á dressinu sem maður er búin að máta, OMG hvar ætli búðareigendur finni alla þessa ljótu skó sem þeir eru að bjóða manni? Kannski með þá svona ljóta til að þeim sé ekki stolið?
Þangað til næst amma kveður.............

6. janúar 2008

Hreyfing í nýtt húsnæði



Miklar breytingar eru hjá Sigrúnu í vinnunni þar sem Hreyfing er á hreyfingu og flytur í nýtt húsnæði í Glæsibæ. þetta verður mikill munur á vinnuaðstöðu fyrir Sigrúnu. Allar líkur eru á auknum viðskiptum og breyttum viðskiptamannahóp þar sem þjónustan er meiri og af öðrum gæðum en verið hefur. Hjá mér (afa) er það helst að frétta að starfsemin fyrirtækisins sem ég hef unnið fyrir í Þorlákshöfn hefur verið seld og nýjir eigendur hafa tekið við. Þetta þýðir töluverðara breytingar og starfsemi verður minni en áður var, hvað sem síðar verður.