4. október 2010

12.000 milljónir í tvö göt

Þá er búið að vígja göng í Héðinsfjörð og þaðan til Ólafsfjarðar sem hafa verið 4 ár í byggingu. Ráðamenn tala um kosti við göngin, eitt atvinnusvæði og færri kílómetrar til annara byggðarlaga. Íbúar í Siglufirði voru um 1.400manns árið 2003 og sennilega hefur það verið sá tími sem menn voru alvarlega að íhuga þessa framkvæmd. Þá hefur verið borðleggjandi að þetta hefur verið kostnaður uppá 85 milljónir á íbúa eða 255 milljónir á íbúð ef í henni eru 3 manneskjur. Á þessum árum var kanski verð á íbúð í Siglufirði 10 milljónir.
Hver er ábyrgur fyrir þessu? Hvað er það sem réttlætir þessa framkvæmd? Eitt atvinnusvæði fyrir 3.000 íbúa? Styttra að keyra á Akureyri í búð? Er kanski ódýrara að versla í matinn á Akureyri en á Sauðárkrók? Hvað á að gera fyrir Sauðkræklinga þegar þeir missa Siglfirðingana sem viðskiptavini í Skagfirðingabúð?
Ég var á sjó í Ólafsfirði þegar ég heyrði af þessum göngum fyrst frá manni sem var frá Siglufirði. Ólafsfirðingunum sem voru um borð fannst þetta bara góður brandari og engum datt í hug að þetta væri virkilega í alvörunni, enda maðurinn þektur fyrir létta lund og grín.
Hvað finnst Vestfirðingum um þetta þar sem vegirnir eru illfærir á sumrin? Vestmanneyingum sem þurfa að borga fyrir sínar samgöngur og eru 3 sinnum fleiri og komast ekki alla daga á milli? Siglfirðingar hafa nefnilega verið með ágætis samgöngur við Skagafjörð með sínum strákagöngum. Héðinsfjarðargöngin ættu að vera minnisvarði um hvernig á ekki að fara með skatt-peninga og sína nauðsyn þess að gera landið að einu kjördæmi. En fyrst búið er klára bullið hvet ég Siglfirðinga til að fara sem mest um göngin og virkilega njóta þess. Nú er svo komið að alls ekki má flytja burt því draumurinn hefur ræst. Gott er til dæmis að kaupa sér niðurgreitt lambakjöt á Akureyri og brosa svo í göngunum á leiðinni heim.