19. október 2009

Sofið í helli

Við félagarnir úr Atlantis keiluklúbbnum á fimmtudagskvöldum fórum í góðann túr um helgina á búgarð sem fyrrverandi bakari hér í Walvis Bay á. Þetta er 13000 hektara jörð sem var 38000 hektarar áður en henni var skipt upp og seld. Það var grillað og skoðaðar stjörnurnar í stórum stjörnukíki sem var til staðar. En aðstaðan er þannig að það var sofið í helli sem var búið að laga til. Klóið var úti og hægt að skoða stjörnur á nóttunni og Sebra á daginn þannig að ekkert lá á að klára. Sama var með bað og sturtu. Hitinn var yfir 30 gráður og loftið þurrt.
Svo var farið í Solitare í morgunmat daginn eftir og komið við heima hjá bóndanum og farið í sundlaugina sem var í frábæru umhverfi.
Á sunnudegi var farið í boði frænda Villi eins og hann er kallaður á opnum Landrover og skoðað gilið sem áin í landi hans rennur um ca 2x á ári. Það er ómetanlegt að skoða þetta með manni eins og honum, þekkir svæðið út og inn, skilur samspil náttúrunnar og kann að segja frá því.
Það má segja frá því að um árið voru íslendingar á ferð yfir brú í þessu gili og eitthvað bil var á milli bílanna og seinni bíllinn varð að bíða í nokkrar klukkutíma vegna þess að það hafði flotið yfir brúna og ófært.
Posted by Picasa

Dagurinn í dag

Þetta var svona dæmigerður dagur. Vakna kl 06.15 og koma vinnslu af stað fyrir 07.00 sækja aðföng í bæinn, hefti fyrir netið á grindurnar gas á lyftarann og fl. Þá var komið að þeim sem vakna á skrifstofutíma og hringja í Arabann sem seldi okkur fisk sem hann átti ekki og krefjast endurgreiðslu, sem hafðist og fylgjast með að það skilaði sér á reikninginn. Annar rúntur um verksmiðjuna og þá..... einn starfsmaður sem ég hafði ávítað áður nýkominn úr kaffi og svo önnum kafinn við að senda SMS að hann tók ekki eftir mér. Guttinn var í 23 gráðu hita í kuldaúlpu og ég greip aðeins í úlpuna með annari og ég er ekki frá því að hann hafi aðeins lyfts upp frá jörðu (ekkert nema pungurinn og eyrun) og ávítaði hann fyrir barnaskapinn. Þetta er auðvitað alveg kolvitlaus aðferð og mikið betra að taka upp farsímann og sjá til að hann komi bara ekki aftur. Hann gæti tildæmis unnið hjá símanum. En svona getur skapið farið með mann. Hann var umkringdur bræðrum sem betur fer fyrir mig, en enginn tók upp hanskann fyrir hann. (Hér eru málaferli þjóðaríþrótt eins og hjá kananum). Þá fór ég yfir byrgðir af umbúðum og komst að því að það er verið að stela striga í óásættanlegu magni. Svo voru hnífarnir brýndir og tekið kaffi í Hampiðjunni, ein saga í kaupbæti. Tekinn púlsinn á íslandi og borgaðir reikningar og farið yfir tímaskráningar. Svarað tölvupósti um kör og strigakaup og þá er komið að mat. En matartími hér byrjar kl 13 og þá er búið að vinna frá kl 07 að frádregnu kaffi sem er 15 mín og hefst vinna eftir mat kl 14.oo. Ég fer út að borða í matartímanum og í boði var alvöru kjötkássa með salati og grjónum og kostar það 450 kr ísl og diskurinn er klár þegar ég mæti. Eftir hádegi eru bara 3 tímar í vinnslu auk þrifa og notaði ég tímann til að sega til við pökkun og snyrtingu á fiskinum, já það verður að gera það líka. Leyfði starfsmönnum að taka fisk með heim sem við getum ekki notað. Þegar verið var að klára þrifin kemst ég að því að það hefur verð stolið salti sem við vorum að nota. Á morgun verður enginn fiskur gefinn því það var stolið, það er bara þannig að hér þurfa að vera einfaldar reglur sem allir skilja.
Þá hringir síminn og það er fasteignasalinn sem leigir okkur húsið og vill fá að sýna það væntanlegum kaupanda, jú auðvitað er maður greiðvikinn og setur öll þjófavarnarkerfin á og brunar heim og gengur frá útilegubúnaðinnum frá helginni og þá er bankað, jú gjörið svo vel að koma inn. Trufla nei nei skoðið bara eins og ykkur lystir...... kveðja afi

10. október 2009

Skuldlaust heimili


Hér er mynd af skuldlausu heimili í Lüderitz. Það sem veldur íbúunum áhyggjum er rafmagn og skolpleiðslur sem bæjaryfirvöld komu fyrir, vandamálið eru ekki lagnirnar heldur að bærinn vill fá smá greiðslur uppí kostnað. En það var betra á þeim stað sem gettóin voru áður en þau voru hrakin burt af bæjaryfirvöldum. Engar mánaðarlegar greiðslur, og þá...... er hægt að umbera hlandlykt og myrkur.
Svo má bæta því við að hér í Walvis Bay er hverfi þeldökkra þakið svona húsum þar leigja þeir frændum og bræðrum marga hluta af lóðinni sinni fyrir háa upphæð (Ca útborguð laun verkamanns) hver hluti með vatni og rafmagni á eina ljósaperu, en þú verður að skaffa gettóið sjálfur. Í húsið fara svo 6-9 manns og ca 2 vinna úti og allri eru sáttir, þannig er það allavega hjá þeirri sem skúrar hjá okkur skrifstofurnar. Með þessu hafa húseigendur dágóðar leigutekjur af lóðinni.
Er ekki verið að sýna gettó í Smáralindinni núna???
Það er svo hægt að benda á að þrátt fyrir allt þá eru til heimili á íslandi sem eiga minna en þetta, því miður.
Á myndinni má sjá matjurtargarð og klæðningin á húsinu er úr útflöttum ólíu-tunnum merktum CAT sem er eitt aðaltískumerðið hér í skóm og fatnaði ásamamt Jeep. Ekki ólíklegt að eitthvað vélartengt hafi komið í þeim upprunalega. Já hér er allt endurunnið og umhverfisvernd í verki. Kveðja afi
Posted by Picasa

4. október 2009

Mótorhjólahelgi Walvis Bay


Hér um helgina hefur verið mikið um mótorhjól í bænum, en kúbburinn hér er árlega með uppákomur keppni í öllu mögulegu á mótorhjólum. Þetta hefur mælst vel fyrir og undanfarin ár hafa komið klúbbar úr Cape Town, Windhoek og Lüderitz og þessum helstu stórborgum úr sunnanverðri Afríku. Lokað var annari af tvöföldu akreininni frá hringtorginu sem stefnir til Meersig. Þar var spyrnt með úrslætti og tímatöku. Ekki skildi ég mikið sem gargað var í kapp við tónlistina þar sem lýsingin fór fram á afríkans, en Eyfi Valt var á brautinni með flaggið og kom reglulega til mín með uppl.
Þeir sem voru í Lüderitz ættu að kannast við Nobba (á myndinni) sem hefur fengið nóg að éta undanfarið og gengur gistiþjónsustan greinilega vel hjá karli, og ekur hann á nýju BMW hjóli.
Þegar tímatökunni var lokið var dagskrá á tjaldstæðinu í bænum en það var lagt undir þetta. Þar var farið í að keppni að keyra eins hægt mögulegt er með farþega á þröngri braut og átti farþeginn á leiðinni að taka eins mörg glös og hann gat af glasabakka, auðvitað án þess að stoppa og tekinn var tíminn. Þetta reyndist erfiðara en flestir áttu von á og voru einungis fáir sem luku keppni. Einnig var keppt í að kasta Hondu mótor sem lengst, planka labb þar sem fjórir settu fæturna í planka og svo varð að labba í takt. En það sem vakti mesta lukku var "Bronco ride" en þá var ekið hjóli með hjámiðju gjörðum, og aka þurfti á milli þrauta. Til að krydda þetta svolítið þá voru nokkrir sem kveiktu í afturdekkjunum, einfaldlega voru með hjólið í frambremsu og gíruðu upp þangað til gúmmíð hitnaði, tættist af sprakk og alveg niður í felgu og regnið stóð aftur úr rándýrum hjólunum. Ég tók eftir einum starfsmanninum sem var að vinna við að þrífa klósettin og hann bara gapti. Svona eyðilegging er einfaldlega margra mánaða laun fyrir hann. Í heildina frábær hátíð og hafði ég gamana af. Þeir sem hafa áhuga á að skoða myndina betur smellið á til stækkunar Kveðja úr sól og hita afi....
Posted by Picasa

1. október 2009

Fyrsti gámurinn

 
Nú er fyrsti gámurinn fullur og klár til sendingar. Það er viss áfangi að komast á, framundann er tími frekari uppbyggingar og lagfæringar í rekstri. En....það er bara spennandi verkefni að takast á við.
Nú er eins mánaðar veiði stopp og eru þá allir togarar og línubátar bundnir við bryggju. Vinnufólkið streymir í þúsundar tali norður í land og eyðir þeim peningum sem það hefur áunnið á vertíðinni. Kanski pínulítið eins og það var heima þegar sveitafólkið fór á vetrarvertíð og fór heim á vorin í sumarverkin og keypti kanski traktor fyrir hýruna af sjónum. Já já en fyrsta dollan er farin.....afi.
Posted by Picasa