28. júní 2009

Sól sól og aftur sól

Lífið er ljúft hjá okkur mæðgum hérna í Namibíu. Dagurinn er tekinn frekar snemma enda sólin komin upp um kl 06:00 og orðið dimmt kl 18:00. Ég skráði Guðrúnu á myndlistarnámskeið og byrjar hún á morgun og verður 2x í viku, einnig fékk ég einkakennslu fyrir hana í ensku og verður hún í henni 1x í viku. Það er ekki mikið um að vera fyrir hana hérna skólarnir eru á fullu svo það eru engin börn til að leika við nema um helgar. Í gær fórum við til Swakopmund sem er næsti bær við Walvis og þar lentum við í miðri skrúðgöngu og var það svaka gaman, minnti á Luka hátíðina sem við upplifðum í Lüderitz þegar við áttum heima þar.
Set inn nokkrar myndir af skrúðgöngunni.





Ætla að skreppa út í sólina, þangað til næst..........amma kveðjur.

23. júní 2009

Þvottaóð vinnukona.

Lífið í Walvis Bay er afskaplega ljúft eða svona næstum því. Í morgun þegar ég vaknaði sá ég að öll fötin mín – þau fáu sem ég hafði voru horfin (taskan ekki komin) og ég ekki orðið vör við neinn umgang. Þaut fram og tók þá eftir því að vinnukonan var komin, kíkti inn í þvottahúsið/bílskúrinn og viti menn þar stóð konan við þvottavélina og á gólfinu lá hluti af þeim fáu flíkum sem ég var með, ég reif þau upp og dustaði af því og leit svo illskulegum augum á konuna, hún hafði nefnilega sett brjóstarhaldarann minn í þvottavélina og eina bolinn minn. Nú hvað átti ég nú að gera, ekki gat ég gengið um bæinn í gallapilsi og ber að ofan, datt þá í hug að ég gæti nú sennilega farið í flíspeysuna mína sem ég var svo lánsöm að setja ofan í bakpokann minn heima á Íslandi og nú tók við leit að peysunni, ég var nokkuð viss um að ég hafði sett hana á eldhússtólinn í gærkveldi – og enn og aftur fékk konan illt augnaráð, hún var nefnilega líka að þvo flíspeysuna mína, hefur bara hirt öll föt sem hún fann og stungið þeim í þvottavélina! Þegar ég kíkti inn í fataskápinn þá sá ég að ég hafði líka komið með gráa kjólinn minn í bakpokanum, skil ekki hvað fékk mig til að setja þessar flíkur í bakpokann frekar en í ferðatöskuna, sennilega hef ég ekki nennt að opna lásinn og auðveldara að setja þetta í bakpokann, nú ég fór í kjólinn og leið frekar illa svona án haldarans en ég gat þó farið í bæinn skammlaust. Ef við hefðum ekki verið búnar að ákveða að fara á kaffihús og hitta íslenska konu þá hefði þetta ekki verið svona mikið mál hjá mér. Vinnukonan kom svo til Tamöru og spurði hana hvort ég væri ennþá reið út í hana? Hún hefur örugglega fengið hálfgert sjokk konu greyið þegar ég kom strunsandi að ná í fötin mín.
Í kvöld er ég svo að fara í keilu, á þriðjudögum er konukvöld. Það verður spennandi að sjá hvernig þetta fer fram því ég held að þetta sé ekki alveg eins og á Íslandi.
Þangað til næst..............amma kveðjur.

16. júní 2009

Munaður ekki sjálfgefinn hér

Um helgina var lokað fyrir sjónvarpið og kom í ljós að eigandi hússins hafði lagt svo fyrir en við vorum búnir að borga, hægt var að fá opnað aftur eftir fortölur. Á mánudagsmorgni var lokað fyrir rafmagnið og kom í ljós við eftirgrenslan að rafmagnið var tekið af vegna innsláttarvillu hjá rafveitunni sem er algengt og að rafmagnið ætti bara að koma á hið allra fyrsta. En maðurinn sem væri í því að loka fyrir rafmagnið færi svo í að opna fyrir eftir því sem greitt væri og það væri bara mikið að gera hjá karli, en það kæmi á í dag. í morgun var ekki komið rafmagn á, en eftir hringingar þá kom það fyrir rest. Þannig að í gærkvöldi var lesið við kertaljós. Þegar maður vaknaði í morgun fór frammúr í myrkri og burstaði tennurnar þá var maður bara þakklátur fyrir að hafa rennandi vatn, en það var einmitt vatnslaust um daginn.

14. júní 2009

Verðlagið

Hef verið að bera saman verð á matvælum og fl. tek hér nokkur dæmi. Franskbrauðhleyfur lítill (eins og tvö rúnnstykki) kr 20 ekki selt á íslandi, mjólk 1 líter kr 165 kostaði ca 80 á ísl. að þvo og þurrka bílinn ekki bón 375 kr. Fara út að borða nautasteik með víni 1.500 kr. Að fara á kei eff sí KFC með kóki og svoleiðis 675 svipað kostar að fara á amerískan hammborgara stað. Hús kosta 15 - 25 milljonir og eru þá stór og nýleg. Hægt er að fá einbýlishús á 10 millur með skúr og samt þannig að íslendingar gætu sætt sig við. Bílar kosta eitthvað minna en heima, en sem dæmi kostarToyota Landcr. 120VX 2009 með leðri nýr 6,5 milljónir. Musso eins og minn ´98 kostar hins vegar 3 sinnum meira hér í Walvis en heima. Það er vöntun á notuðum ódýrum bílum hér en offramboð af þeim heima. Auk þess eldast bílar betur hér.

Rakarinn í Walvis Bay

Í gær fór ég til rakarans sem kann að klippa ókrullað hár. Hann er staðsettur við hliðinna á bensínstöð sem er í miðbænum, ekki ósvipað umhverfi og var hjá BSR við Hafnarstræti forðum. Þegar inn var komið var kallinn (65) standandi við stólinn að klára eina karrí böku og bauð mér sæti í stólnum sem var sennilega frá þeim tíma er hann kláraði að læra. Spegill var á veggnum á móti en ég gat ekki séð mig í honum því hann var þakinn myndum af fjölskyldunni og tveim metrum of langt frá stólnum. Karlinn þurkaði sér um munninn bauð sæti og spurði hvernig ég vildi hafa klippinguna og svo hófst hann handa. Ég fékk það strax á tilfinninguna að það væri verið að rýja með rafmagns-klippum og ég væri bara ein rollan enn. (Ég hef lent í því áður hjá Ragga rakara í Keflavík, nema þá fékk maður það á tilfinninguna að hann væri að vera of seinn í aðgerð í einhverju fiskhúsinu og hann hefði týnt skærunum). Nema hvað... Walvis Bay raggi átti skæri og saxaði eitthvað og svo var hann alltaf að bursta af mér hárið og dreifa púðri sem minnti á smábarnarassa púður og lyktin sú sama. Þetta setti hann á hálsinn og nuddaði og burstaði svo að mér sótti hnerri sem braust út með hvelli og þá skyndilega var hann búinn að klippa. Þegar ég svo stend uppúr stólnum þá sé ég á miða sem stendur á stórum stöfum "ef þú reykir ekki þá rek ég ekki við" góð ábending walvis ragga..... Þá var komið að því að greiða, tónlistin hljómaði frekar hátt gamli söng með og ég heyrði ekki alveg hvað hann sagði eða söng en.... gjaldið var 375kr ísl. Það var stuð hjá walvis bay ragga og ég hlakka til að fara aftur.
Síðustu viðskipti sem ég átti við íslenskan rakara var gjaldið 3.200 kr ísl en klippingin betri. Satt best að segja þá var þessi klipping mun betri en ég fekk hjá rakaranum í Lindarhverfinu fyrir ári.