Já ég verð nú ekki oft kjaftstopp og pínu reið en í dag gerðist það. Fór með jeppann á verkstæði í gær því bremsurnar hafa verið eitthvað skrítnar síðan í frostakaflanum mikla um daginn, greyið hann er búinn að fá að vera inn í bílskúr í nokkra daga til að afþíða hann, en nei nei ekkert bráðnaði af þeim (bremsunum) svo það varð sem sagt að fara með hann í viðgerð. Úfffffff ég er nú eiginlega ennþá í sjokki, aðeins nettar 68 þúsund spesíur þurfti ég að punga út fyrir viðgerðinni! Ég er greinilega mjög dugleg á bremsunni, því diskarnir voru eins og dagblað þeir voru orðnir svo þunnir...........Spurning hvort maður verði að vinna baki brotnu fyrir þessu :-(
Svo er náttúrulega handboltinn að tröllríða öllu þessa dagana, spennan eykst með hverjum deginum, enda eru þessir drengir alveg ótrúlegir. Ég vorkenndi þeim nú alveg rosalega eftir tapið við Úkraínu, leið örugglega jafn illa og þeim ef ekki verr. En með hverjum leik sem þeir hafa unnið hefur mér liðið aðeins betur. Er samt búin að taka eftir því að við hvern leik sem "við" strákarnir spilum þá er ég að fá auka hjartslátt og svo er blóðþrýstingurinn örugglega mjög hár, á ekkert tæki til að mæla hann, finn bara hvernig ég verð öll eitthvað skrítin í kroppnum. Kannski er þetta gleðivíma;-)
Nú er allur snjór nánast horfin á höfuðborgarsvæðinu, einstaka skafl eftir þar sem bæjarstarfsmenn hafa mokað í hauga. Æi hvað það verður allt eitthvað grátt og grámyglulegt þegar hann er ekki blessaður snjórinn, vill hann miklu frekar en rigningu.
Það er greinilegt að ég hef ekki verið haldin ritstíflu í dag, hefði getað skrifað miklu meira, en þar sem handboltinn er eftir smá stund, ÍSLAND-PÓLLAND þá ætla ég að setjast fyrir framan imbann og horfa á leikinn og kannski mar narti í prins póló með.
ÁFRAM ÍSLAND
25. janúar 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli