16. maí 2009

Fluttir í nýtt húsnæði


Nú erum við fluttir í annað íbúðarhúsnæði sem við verðum í til einhverrar framtíðar. Þetta er mikill munur, sem felst í því að maður tekur loksins uppúr ferðatöskunum og finnst maður vera heima hjá sér. Í tilefni dagsins var grillað og setið í garðinum og borðað. Húsið sem við fengum leigt er um 150 fm og með 2 stórum herbergjum og baranherbergi. Auk þess eru tvö baðhergi með sturtu og baðkeri. Stofan er þokkaleg og hellulagður garður. Auk þess er stór bílskúr fyrir tvo bíla með sjálfvirkum opnara. Öryggis kerfi er með húsinu og það er fullbúið til að búa í því með sjónvarpi og sængurfötum, líkamsræktartæki í skúrnum. Allt þetta kostaði töluvert minna en það sem við vorum í.
Einnig fluttum við í skrifstofuna á verksmiðjusvæðinu og komum okkur þar fyrir og unnum þaðan og var það bara góð tilbreyting frá því að sitja í sófa með læratölvuna.

4. maí 2009

Komnir á svæðið


Veðrið í Walvis Bay er þessa dagana gott og mjög jafnt. Á morgnanna er sólin komin í gegnum þokuna milli átta og ellefu á morgnanna og sest um hálf sjö. Kvöldin eru ekki mjög köld miðað við árstíma en hiti er algengur 14-16 gráður þegar sólarinnar nýtur ekki við. Á daginn er hitinn 20-25°C.
Gangur okkar mála er eins og við er að búast hér í Namibíu frekar hægur og skrifræði hefur heldur að vaxið með árunum. Enda hefur áherlsa stjórnvalda verið á að byggja skrifstofur. Þá er þolinmæði helsta dyggðin og vera duglegur að labba auðmjúkur á milli þeirra glæsibygginga með erindi sitt. Eitt af þeim erindum sem þarf að bera upp er atvinnuleyfi og það fæst aðeins í skamman tíma í senn.
Það fer vel um okkur og okkur hefur verið vel tekið af þeim þjóðarbrotum sem hér búa, og við höfum haft samband við eftir komu okkar. Brottfluttir Íslendingar eru þó þeir sem við höfum mest samband við.
Þann 1. maí fengum við afhent framleiðslu-húsið og hefjumst við handa eftir helgi að færa það í stand. En við megum ekki vera áberandi því við erum ekki með atvinnuleyfi en eigum að fá það í lok næstu viku.
Myndin hér fyrir ofan er af því húsnæði sem við erum í núna

8. apríl 2009

24 gráður í Walvis bay


Það er farið að líða að brottför sem verður þann 15 apríl og flest að verða tilbúið sem hægt er að framkvæma héðan frá Íslandi. Daglega er athugað hitastigið á netinu, enda skiptir það verulegu máli í okkar rekstri. Það sem er afbrygðilegt í veðurfari á þessu svæði undanfarið eru miklar rigningar. Þær voru svo miklar að elstu menn mundu ekki annað eins, en þeir verða ekki eins gamlir og við.

14. mars 2009

Namibia


Löngu tímabært að skrifa nokkrar línur á þessa síðu. Ég hef nú bæst í þann hóp manna sem eru að yfirgefa landið allavega tímabundið. Ekki er ég þó að forða mér frá atvinnuleysi eða fjármála fífl-dirfsku. Áhugi minn á að byggja upp rekstur og vera mín fyrir 12 árum í Namibíu hafa valdið því að ég hef undanfarin 2 ár kannað möguleika á að stofna fyrirtæki í Namibíu, og nú er komið að því og ég held suður á bóginn eftir tæpan mánuð. Ég held til þessa verks með jákvæðni, tilhlökkunar auk hæfilegrar spennu vegna þess óvænta sem sannalega verður nóg af þrátt fyrir töluverðan undibúning.
Hér verður eitthvað sett inn af fréttum og vonandi myndum til skemmtunar og upplýsinga. Endilega verið dugleg að gefa ykkar álit á því sem ber upp á þessa síðu og þá hvetur það til frekari aðgeraða af minni hálfu.
Húsið hér fyrir ofan verður það húsnæði sem við verðum í til að byrja með.

5. desember 2008

Sagan af hvolpinum og gamla hundinum

Fyrir mörgum árum var ég að vinna með manni sem átti tík sem var nýbúin að gjóta. Hann var með nokkra hvolpa sem hann var að reyna koma í fóstur. Þar sem hann var með hreinræktaðann labrador spurði ég hann hvort hann vildi ekki bara selja hvolpana og losna þannig við þá en það vildi hann ekki. Þar sem ég vissi að bróðir hans bjó í sveit þá nefndi ég þann möguleika, en það vildi hann alls ekki.
Ástæðan fyrir að hann vildi ekki láta bróður sinn hafa hvolpinn var að á bænum var gamall hundur fyrir, sem hafði þann leiða sið að gelta að bílum auk annara ósiða sem ekki var hægt að venja hann af. Það merkilega við þetta var að hundarnir sem höfðu verið á undan honum höfðu alla sömu ósiðna og hann, þó hafði bróðir hans gert tilraun til breytinga á hegðun árum saman. Þessi félagi minn var með skýringuna alveg á hreinu, hvolparnir læra af þeim eldri gott og slæmt.
Þessi saga kom í hugann þegar um er rætt að hluti fólks í landinu vill breytingar í íslenskum þjóðmálum og er manni hugsað til alþingis þar sem ungu þingmennirnir eru teknir til kennslu í háttum hvað má og hvað ekki, jafnvel kennt hvernig á að taka til máls. Þegar þeir eru svo búnir að vera undir leiðsögn gömlu hundanna þannig að þeir þori að tjá sig eru þeir verkfæri gamalla siða og ósiða, og að því er virðist til að fylla töluna á bekkjunum. Starf stjórnmálaflokka virðist vera eins. Ég man eftir til dæmis umræðunni um innrásina í Írak, þá komu ungir menn úr sama stjórnmálaflokki skipti eftir skipti í sjónvarpið og mæltu með innrásinni (og ef ég man rétt Bush) af krafti og með svipuðum hætti allir höfðu þeir sömu skoðun. Ef alþingis og embættismenn eru óhæfir í dag þá verða þeir næstu alveg eins eftir að það er búið að temja þá af gömlum hundunum sem búið er að gefast uppá. Það er ekki nóg að fá nýtt fólk, ef á að breyta vinnubrögðum það þarf að byrja frá grunni. Nýja flokka nýtt flokkstarf, en það er engin leið til að svo verði vegna þess að fólk er svo íhaldsamt þegar kemur að kostningum.
Hvað haldið þið að það dugi að henda peningum í amerísku bílaframleiðendurna? Allir vita að þeir framleiða ekki vinsælustu bílana hafa orðið undir í samkeppninni við önnur lönd í bílaframleiðslu síðastlinn 30 ár þrátt fyrir að vera staddir á aðalmarkaðnum fyrir bíla. Hafa lifað af forni frægð þjóðernishyggju og ívilnun í gjaldi á stóra bíla sem framlengdi lífi þeirra um nokkur ár. Þarna er komin löng saga af klúðri sem þarf að enda til að fá upphaf sem á sér von.

10. nóvember 2008

Brask og kreppa

Staða fjármála þjóðarinnar og heimila er mikið rædd í dag. Ef skoðað er aftur í tímann þá hafa fyrirtæki og heimili tekið lán fyrir hlutum sem hækkuðu stöðugt og veðsettu og keyptu meira. Því meira sem keypt var því meira hækkuðu eignir þínar. Hús kvóti fyrirtæki og nánast allt hækkaði í verði að raungildi. Ef ég hefði keypt tíu íbúðir eftir að mín hafði hækkað nógu mikið til að kaupa aðra þá hefði ég verið stóreignamaður áður en hrunið varð. Þetta voru kjöraðstæður fyrir braskara, áhættufíkla og þá sem voru í vandræðum og töldu sig þurfa að hætta öllu sínu.
Auðvitað voru sérvitringar eins og ég að keyra á bílum sem voru ekki keyptir á láni á meðan krakkar með yfirlætislegt glott keyrðu um á bílum sem þau áttu ekkert í og eru svo að lenda í að eiga minna en ekkert í, spáðu í það borga og borga og eignin er með öfugu formerki.
Það er fleira sem var eftirtektarvert fyrir þetta tímabil. Rekstur fyrirtækja var með þeim hætti að þau sem voru nógu djörf í braskinu með því t.d. að kaupa kvóta eða bara önnur fyrirtæki þurftu ekki að hagræða í rekstri frekar en þau kærðu sig um. Útgerðarmaðurinn sem átti kvóta, gat leigt frá sér eftir hendinni ef vantaði aur. Vegna þess að veiðiheimildir hækkuðu reglulega um tugi prósenta var nægur hagnaður í árslok. Svo er það annað mál að altalað er að útgerðamenn komu sér samann um að halda verðinu uppi með samráði, verði þeim að góðu nú. Þetta gerði úgerðarmönnum kleift að skulda margfalda ársframleiðslu, reksturinn var aukaatriði braskið númer eitt, og það gekk, en tæpast lengur. Bankamenn tóku penigna að láni erlendis á nokkra prósenta vöxtum og leigðu frá sér á margföldu álagi með td. kvóta að veði sem var metinn á helmingi hærra verði en í fyrra og þannig liðu árin. Þeir hafa verið eins og börnin sem horfa á raggettuna þjóta upp með miklum látum og trúa því að hún fari á þessum hraða til eilífðar. En þetta eru miklir gáfu menn sem aldrei fengu nóg borgað eða hossað nægjanlega á einn eða annan hátt.
Nú er kanski kominn sá tími að vel rekin fyrirtæki lifi og þeir sem voru bara í braskinu hverfi af sjónasviðinu og er það ágætt. Það er ömurlegt að horfa uppá fyrirtæki sem eru illa stjórnað rekstrarlega en blómstra svo á braski, skila ekki rekstrarhagnaði árum saman. Þeim bregður við núna. Reksturinn slakur bankarnir lokaðir skuldirnar í erlendu og í mörgum tilfellum margfaldar framleiðlsuverðmætum fyrirtækjanna á ársgrundvelli. Það sem maður óttast er að við förum inní tíma sem við munum eftir um 1987 með pólitískum afskiptum um hverjir megi lifa og hverjir ekki með byggðasjónarmiðum sem skálkaskjól og án allrar skinsemi eins og tamt er með pólitík.

5. nóvember 2008

Enn að bíða

Já ég er enn að bíða eftir að fá boðskortið frá sendiráðinu, sá í fréttunum í gær að sendráðið ætlaði að vera með kostningavöku og var búið að bjóða fullt af Íslendingur í partýið. En ekki mér - eða ég hef alla vegana ekki ennþá fengið boðskortið, ætli pósturinn hafi stolið því?

Hélt að fólk sem væri nýkomið með ríkisborgarrétt í landi tækifæranna fengi nú boð í svona fína veislu! Greinilega stór misskilningur hjá mér.

Sem sagt ég er ennþá að bíða!!!

Þangað til næst............amma kveður.