22. ágúst 2008

Telja konur sig ekki vera menn?

Það ber alltaf meira og meira á því að konur vilja ekki telja sig vera menn. Eru þær að reyna að greina sig sem sér dýrategund? Ég vil halda mig við að konur séu menn, við erum með karl-menn og kven-menn og þetta fólk vinnur og fær starfsheitið þingmaður eða lögreglumaður. Mér dettur ekki í hug að þingmaður sé karlmaður frekar en kvenmaður.
Það er engin þörf fyrir að vera með sér starfsheiti eftir því hvort það er karl eða kona sem sinnir verkinu. Það þarf að breyta starfsheitum þar sem orðið kona eða karl kemur fyrir af augljósum ástæðum og er sennilega búið að því.
Karlkyns flugfreyjur voru kallaðir Skafti til skamms tíma af gárungunum. Ég kann betur við að kalla konu sem stjórnar skrifstofustarfi skrifstofustjóra en skrifstofustýru. Samkvæmt þessu ættum við að hafa fengið Borgarstýru í gær.
Konur!!!, verið bara brattar með að vera menn.

18. ágúst 2008

Fundnir

Vildi bara láta ykkur vita að lyklarnir eru fundnir svo þið þurfið ekki að naga ykkur meira af spenningi. Þeir fundust auðvitað þar sem var búið að leita - ofan í skúffu þar sem þeir eru ALDREI settir. Ég leitaði þar í morgun en auðvitað hefur álfurinn ég ekki séð þá eða þá að einhver hefur sett þá þar eftir að ég var farin í vinnuna.

Farin í búðina að kaupa lifrapylsu..............amma kveður

Hvað gerir maður þegar bíllyklarnir týnast?

Jú maður tekur fram reiðhjólið og hjólar í vinnuna.
Ég var svo heppin/óheppin í morgun þegar ég var að fara í vinnuna að ég fann bara ekki bíllyklana sama hvað ég leitaði um allt hús. Var orðin of sein og lét vita í vinnuna að ég kæmi aðeins seinna þvi lyklarnir væru týndir. Datt fyrst í hug að labba af stað en það tæki svo langan tíma, datt einnig í hug að taka strætó en þá vissi ég ekkert hvernig strætó gengur hérna í hverfinu og nennti ekki að fara á netið til að finna út úr því, en þá mundi ég allt í einu eftir reiðhjólinu mínu sem hafði ekki verið notað í langan tíma eða bara nánast í allt sumar, skellti á mig reiðhjólahjálminum og skundaði af stað á mínu eðalfína reiðhjóli. Var orðin of sein þannig að ég hjólaði frekar hratt og nota bene þetta er allt upp í móti! Kom í vinnuna eftir 20 mín hraðhjólun og auðvitað löðursveitt og með hárið klesst niður eftir hjálminn og ég sem eyddi 5 mín í að blása hárið, en ég hristi bara hausinn og þá var það komið í fínt lag ( þar að segja hárgreiðslan) hausnum verður ekki breytt úr þessu og ef maður gæti hrist í sig vitið annað slagið þá væri það nú nokkuð gott. Sat svo í 30 mín og svitnaði og svitnaði og hugsaði bara um það eitt að samstarfsfólkið mitt sem ég var að hitta í fyrsta skiptið færi nú ekki að finna svitalyktina af mér. Ef ég hefði vitað í gærkveldi að lyklarnir væru týndir þá hefði ég auðvitað vera búin að undirbúa mig betur, t.d. kíkja á leiðir strætó hérna um hverfið, leita betur af lyklunum og svo fara fyrr af stað til að þurfa ekki að hraðhjóla í vinnuna.
Ef lyklarnir finnast ekki í dag er staðan orðin mjög alvarleg, ekki það að ég get ekki hjólað í vinnuna heldur hitt að þetta eru einu lyklarnir af karinu.
Ætli ég virki ekki heimilisfólkið í kvöld til að leita með mér af lyklunum einhversstaðar hljóta þeir að vera.

Þangað til næst...............amma kveður

11. ágúst 2008

Tína ber

Fórum á sunnudaginn og tíndum ber við Eldborg sem er austan við Meitilinn. Þarna var gaman að koma, en hef reyndar farið þarna áður á mótorhjólinu og vissi því hvar gott var að bera niður. Tíndum bláber og aðalbláber í tvo tíma og voru þetta um tvö kg af bláberjum og 1 kg af krækiberjum. Það eru ber um alla heiði, ekki þarf nema að bregða sér frá vegi til að finna mikið af krækiberjum. Þegar heim var komið var sultað og þetta varð til þess að Guðrún fór út um kvöldið og tíndi rifsber af runnum í hverfinu (ekki prívat eign) og kom með á annað kíló eftir stutta stund og verður það sultað líka. Sultan úr þessum berjum er mörgum sinnum bragðmeiri en útþynnt gamle fabrik sem bragðast eins og sykur, hlaup og litarefni með smá berjabragði, sem bara skemmist ekki. Afi.

6. ágúst 2008

Misjöfn ævi mannanna

Ég hef áður minnst á manninn sem hringdi í undirmann sinn um hádegi á mánudegi og sagðist ekki komast til vinnu vegna harðsperrna sem hann hafi fengið um helgina eftir að hafa verið að leika sér í sporti.
Sami maður mætir ekki í vinnu nema svona 1-2 daga í viku 1-3 tíma í senn sumar jafnt sem vetur. Nú bar svo við að það barst til tals hvort hann tæki sér ekki sumarfrí, og svaraði hann því til að hann hefði ekki tekið sér sumarfrí í 3 ár en hann reyndi að "slíta sig frá þessu" þegar hægt væri.
Gullkornunum hættir ekki að rigna inn, einn daginn hringdi vinurinn um hádegi á föstudegi og sagðist ekki koma vegna þess að hann hefði gert svo mikið þennan morguninn að hann ætlaði að slíta sig frá eftir hádegi.
Öðrum ungum manni man ég eftir sem kom ekki fyrr en eldsnemma seinnipartinn, en hann var forstjórinn í þriggja manna fyrirtæki föður síns og hann sagðist alltaf vera að hugsa um fyrirtækið á kvöldin og nóttunni svo hann treysti sér ekki til að koma fyrr.
Svo er það sagan af deildarstjóranum í ráðurneytinu sem var alltaf með auka jakka á stólnum svo að það liti út fyrir að hann hefði bara brugðið sér frá sem snöggvast.
Einn ungur maður gat ekki mætt í vinnu vegna þess að honum gekk illa að sofna um kvöldið. Hann var búinn að vera í fríi frá hádegi á föstudegi til þriðjudagsmorgun eftir verslunarmannahelgi alls 88 klukkutíma. Það eru engin takmörk fyrir hvað sumir geta talið sjálfum sér trú um þegar kemur að afsökunum fyrir að vinna ekki.

1. ágúst 2008

Verðum á Gilsbakka

Yfir verlsunarmannahelgina verðum við í tjaldvagninum á Gilsbakka í Borgarfirði og þar verða einnig nokkrir vinir og vandamenn. Ástæðan fyrir því að við völdum að vera að Gilsbakka er að Sigrún var þarna í sveit og þekkir bóndann Ólaf sem tók vel í að við kæmum en auk þess er ekki spennandi að vera á tjaldsvæðum.
Smá sögustund.............við höfum prófað nokkrum sinnum að gista á tjaldsvæði og dettur manni í helst í hug sögur sem tilheyra fólki sem lendir í því að búa í blokk þar sem er mikið ónæði og ekkert hægt að gera í málinu nema vera leiðinlegur um hánótt. Þó heyrði ég góða sögu af konu sem var á hestamannamótinu á Hellu í sumar, en hún var búinn að biðja tjaldbúa um að stilla gleðinni í hóf og míga ekki meira á tjaldvagninn sinn annars hefðu þeir verra af. Eftir erfiða nótt og lítinn svefn hjá henni dreif hún sig á fætur batt tjaldið aftaní jeppann og ók af stað með bytturnar hangandi aftaní bílnum inni í tjaldinu, tjaldbúar og tuskan (tjaldið) voru hálf drusluleg eftir dráttinn, en ekki var stoppað fyrr en komið var út fyrir svæðið. Það er betra að taka mark á því þegar sumir tala, þeim er alvara og fyrir þá sem ætla að vera á tjaldsvæði í sumar .....takið með ykkur spotta. Afi