4. mars 2008

Furðulegur köttu


Á heimilinu er köttur, dóttir mín fékk hann þegar hún var 8 ára og var ofsalega glöð yfir því að LOKSINS ætti hún gæludýr! Það var sem sagt aðalmálið að eignast gæludýr, pabbi hennar var búinn að bjóða henni gullfiska en henni fannst það ekki vera gæludýr. Nú þessi köttur hefur verið hérna á heimilinu sumum til gleði en öðrum til ama. Þetta er svona inni köttur sem fær bara að fara út á svalir þegar það er gott veður, hún leikur listir sínar á handriðinu við litla hrifningu eigandans, fyrst þegar kötturinn fór í þessa loftfimleika sína þá hélt ég að dóttirin mundi missa málið, henni brá svo rosalega að hún kom ekki upp orði, núna erum við orðnar aðeins vanari þessum fimleikum. Fyrir þá sem ekki vita þá búum við upp á 4 hæð í blokk, þannig að þetta væri töluvert fall fyrir köttinn ef hann færi fram af.

Nú þessi köttur hefur verið alinn upp á kókópuffsi eins og pabbi eigandans kallar þurrfóðrið hennar, hún vill ekki harðfisk né soðin fisk, bara rækjur og humar. Henni finnst þeyttur rjómi ekki góður, hins vegar er hún ÓÐ í ólívur, aspas og bjór. Já ég sagði BJÓR, hef reyndar bara prufað að hella smá í lófann á mér og hún lepur það upp með græðgi, þori ekki að gefa henni mikið vil ekki hafa fullan kött í íbúðinni hann er nú nógu klikkaður fyrir.

Á kvöldin er það hans mesta skemmtun að bíða eftir eigandanum sínum á meðan hún er að bursta tennurnar, þá fer hann í einn stólinn í stofunni og hoppar svo í átt að henni þegar hún kemur fram, auðvitað skrækir barnið því henni bregður svo, sama þó kötturinn geri þetta kvöld eftir kvöld.

Þegar einn tiltekin gestur kemur í heimsókn til okkar þá fær kötturinn alltaf kast, snuðrar í fötunum hennar, nagar hárið á henni með mikilli áfergju og kemst í þvílíkan ham að annað eins hefur ekki sést, og ef gesturinn kemur með tösku eða bakpoka þá ræðst hún líka á það. Þetta undarlega hátterni kattarins er bara hægt að rekja til þess að þessi aðili kemur frá heimili þar sem móðir kattarins býr.

Þangað til næst........amma kveður.

1. mars 2008

í heimsókn

Vilhelm Leví er í pössun hjá ömmu sinni og afa, og Guðrúnu stóru frænku. Hann er búinn að vera alveg rosalega góður í dag, greinilegt að hann er búinn að ná sér eftir veikindin. Dundaði sér heil lengi í búðaleik, varð hins vegar frekar afundinn þegar amma smellti af honum mynd í hita leiksins. Núna er hann steinsofandi í ömmu herbergi með lamba - vona að hann sofi vel í alla nótt.

Takt texta bull

Í svefnrofunum kom texti í upp í hugann með takt fastri laglínu sem hljómaði í hausnum á mér sterkt aftur og aftur, þetta er náttúrulega óttalegt bull eins og megnið af því sem í gangi er og allt í lagi með bullið það er saklaust eitt sér. Auðvitað er þetta ekki í fyrsta skipti sem ég vakna með þessum hætti en í þetta skiptið skrifaði ég hjá mér bullið og laglínan hljómar eitthvað fram eftir degi í hausnum á mér, ekkert merkilegt við það, en ef þú nennir lestu bullið og gefðu álit og eða bættu við.

Sambúð undir súð
saman sveitt og kúl

Bankað að dyrum var
enginn frammi var

Sexið ávöxt bar
barnið komið var

Unnið fram á nótt
saman brauðið sótt

Svo var það einn daginn að gæinn fékk nóg og fór...

Saman undir súð
sat ég ein og fúl

Barnið fagurt er
hvað skal gera hér

Fá mér annan mann
hvar skal finna hann

Prufa nokkra fyrst
hvort ég hafi list

Sambúð undir súð
saman sveitt og fúl

Sakna fyrsta manns
best að finna hann

Sambúð undir súð
sátt og kúl

.....það væri nú gamann að fá nokkrar línur í sama dúr, þú takt texta ædúl. Eins væri gamann að vita hvort eitthvað lag kemur upp í hugann þegar þetta er lesið með sterkum áherslum og hvert erindi lesið tvisvar. ....afar kúl afa kveðja.

17. febrúar 2008

Mennigarviðburður

Þá er að gera skil á tónleikunum Skagfirsku söngsveitarinnar, Óperukórsins meðlima úr sinfoníunni ásamt einsöngvurum í gær. Þeir voru hreint út sagt stórfenglegir og vel heppnaðir í alla staði. Og er það vel þar sem mikið var í lagt, æfinarstundir sem eru sennilega yfir 3.000 tímar ef taldir eru allir tímar hjá þeim er að komu og yfir 100 manns af tónalistafólki með mikla reynslu og hæfileika sem lagði allt sitt í að frumflytja Sólveigu frá Miklabæ og endurflytja Jörð. Björgvini vil ég óska til hamingju með Sólveigu nú vill maður bara meira. Mæting var rúmlega 800 manns og vona ég að þeir hafi átt jafn góða stund og við sem vorum að flytja verkin. Það er mín skoðun að þessa dags eigi eftir að vera minnst um langann tíma og vona ég að upptökur hafi tekist vel svo við er þarna vorum getum hlustað á þetta aftur og aftur.
Fjölmiðlar hafa ekki áhuga á svona starfsemi og var tildæmis margsagt í sjónvarpinu þegar ég kom heim af tónleikum að Eiríkur Hauksson hefði komið alla leið frá Noregi til að mæta í kjaftaþátt um Evrovision. Sennilega er þetta það sem fólk vill eyða tímanum í að horfa á og ekki við fjölmiðla að sakast. Svo eru allir fyrir keppni og væri Evrovision ekki merkileg ef ekki væru talin stigin, sennilega löngu hætt og mætti segja það sama um fótbolta og fl. Ég er ekki neitt á móti Evróvision eða fótbolta og flokka ekki í há eða lágmenningu, er bara að varpa ljósi á hvað fólk vill sjá og heyra og hvað ekki. Svo mælir afi sæll og glaður eftir vel heppnaða tónleika.

15. febrúar 2008

Á leið til útlanda

Það má nú segja það að flökkueðli sé mér í blóð borið, verð bara hreinlega að komast til útlanda annað slagið. Í dag er ég að fara til Berlínar með Þórunni vinkonu og mágkonu. Fer sem makinn hennar í árshátíðarferð með vinnunni hennar. Hennar maki - minn bróðir er fjarverandi góðu gamni - heldur uppi stuðinu í Afganistan! Ég hef aldrei komið til Berlínar en oft farið til Þýskalands og þá sérstaklega áður en ég uppgötvaði AMERÍKU :-) Fer eftir hádegi í dag og kem aftur á mánudagskvöld. Er búin að sanka að mér kortum og upplýsingum frá mági mínum sem lærði út í Þýskalandi og þekkir Berlín út og inn. Þetta verður örugglega mjög mikil upplifun.

Þangað til næst...........amma kveður.

Í hverju lenti Villi?

Villi kaus að hitta Óla vin eftir kostningar, en ekki kvaddi hann vin sinn þegar hann fór í mat, heldur fór og samdi við Binga.
Villi fór og hitti vini sína í OR og þeir og vinir þeirra vildu leika hratt og kanski of hratt fyrir Villa. Eitthvað gleymdi Villi að hafa samband við liðið sem var með honum í stjórn og flokki, úps ekki gott afleikur og allir reiðir.
Nú var Villi bara einn og leiður. Þó sögðu flokksfélgar að þeir vildu vera memm og allir ættu að vera vinir, en Villa leiddist. Þá fór Villi og bankaði uppá hjá Óla vin sem var nýkominn heim og sennilega búinn að gleyma að Villi kvaddi hann ekki þegar hann var memm með Binga. Óli var bara til í það en frekar var hann nú laslegur og einmannalegur, ekki víst að hægt verði að vera með honum, en hvað á Villi að gera??? Nú er Villi bara að hugsa sinn gang, búinn að leika með öllum sem vilja vera með en lenti í eitthverju sem var ekki kanski alveg honum að kenna, spurning hvað það er sem Villi lenti í ??
kveðja,
Afi

14. febrúar 2008

Skagfirðingar kunna vel að skemmta sér

Skagfirðingar kunna vel að skemmta sér
sést það best á sælunni hvað lífið er.
Allir fara í betri föt og bregða sér í
dans, með brennivín í maganum og dansa
óla-skans.
Giftir menn og giftar frúr
ganga hjónaböndum úr.
Hver einn er þá frí
að faðma það sem hann langar í.
Skagfirðingar eru fyrir hopp og hí.

Við engan er að sakast nema kanski myrkrið og kuldann.