30. júlí 2009

3 ára snáði



Og amma saknar hans, ótrúlegt hvað svona lítill gutti getur brætt gamalt hjarta :-Þ

24. júlí 2009

Prufuframleiðsla og markaðsverð


Nú er það helst að frétta af vinnunni að við höfum hafið prufuframleiðslu. Þegar starfsmennirnir fóru að handleika hráefnið (beinin) og smáfiskinn (óslægðan 100gr fisk)sem átti að fara til vinnlu þá spurði einn hver borðar svo þetta og svipurinn var ógleymanlegur. Ég sagði að það væri til fólk sem hefði ekki mikið á milli handanna og vildi kaupa þessa vöru. Hafi viðkomandi verið hissa þá varð hann alveg eitt spurningarmerki eftir þetta. Ég veit að hann er með 57 kr á tímann þegar hann hefur vinnu. En það er til fulllt af fólki sem hefur það ekki svo gott, auk þess hefur það engar tryggingar ef það hefur ekki vinnu. Hins vegar var sami aðili enn meira hissa þegar hann sá sama fisk sem hafði verið þurrkaður....ha þetta er hægt að selja í Owamboland. Eftir nokkra daga spurði hann hvað kostaði pakkin sem við vorum að pakka?? Hann var sko kominn með plan. Ef hann bara fengi pakkann á þessu ákveðna verði þá gengi þetta upp. Það er hægt að bæta því við að hann hefði þurrt að tífalda það verð sem hann hafði í huga til að komast á byrgjunarreit með verðið og áhugi minn í samræmi við það.
Nú í dag mætti ég einum sem var á lóðinni okkar að draga á eftir sér gamalt gólfteppi sem hann hafði tekið úr rusladallinum og búið að hnýta saman í böggla. Þetta er góður kunningi og spurði hvað hann ætlaði að gera við þetta?? Ég ætla að up-grada gettóið var svarað....OK sagði ég af hverju sendurðu þetta ekki í Owambo land og græðir pening?? Ég er búinn að kanna það en það er svo dýrt að flytja þetta þangað. Hvað kostar það....jú þeir vilja fá 150 N$ fyrir hvern böggul Sigrún var búin að reikna að það sé 2.400 kr.
Hér er mikill markaður á hreint öllum hlutum og stundum þegar ég er að grínast með hvort ekki sé hægt að selgja hluti þá er þeim fúlasta alvara. Sem dæmi þá vorum við með notaðar smurolíufötur og það komu margir að biðja um fötu, ég spyr hvað viltu borga og það er svarað um hæl 75 kr ísl. Hvað gerið þið við notaða smurolíudollu? Selja í Ovamboland til að bera í vatn. Allt er endurunnið og skrifa ég um það seinna. Það er bara mjög gaman að fá viðbrögð frá þeim sem lesa. kveðja, Asgeir afi Ef þið hafið skoðun góðfúslega deilið með okkur...

22. júlí 2009

Á bleiku skýi

Í dag fór ég í fótsnyrtingu sem er nú ekki í frásögufærandi. Konan sem á stofuna snyrti á mér þrútnar og þreyttar fætur sem eru búnar að labba um margar göturnar hérna í WB. Fyrst byrjaði hún á að setja mig í fótanuddtæki eins og amma átti í den og er eflaust til í annarri hvorri kompu á Íslandi. Ég sat bara í venjulegum stól úr sófasettinu sem var mjög mjúkur og fínn. Á meðan ég var í fótabaðinu var ég að kíkja í kringum mig og undra mig á því hvar konan ætlaði eiginlega að sitja, á meðan ég var að velta þessu fyrir mér kom hún með pínulítinn koll svona eins og litlir krakkar standa á til að ná upp á klósettið og á þessu sat konan á meðan hún snyrti á mér fæturnar, tók sitt hvora löppina í fangið á sér og byrjaði að skafa og snyrta. Konan var óskaplega notaleg og kunni greinilega sitt fag þó að tól og tæki væru ekki eins og á stofu heima á Íslandi. Ekkert 2007 hérna sko.
Endaði hún þetta trítment á nuddi sem var himneskt og ætla ég sko að panta mér tíma í nudd hjá henni því ég held að hún sé með töfrahendur. Fyrir herlegheitin rukkaði hún svo 150 namibíudollara sem er í kringum 2.400 íslenskar verðlausar krónur. Á mánudaginn ætla ég í litun og plokk til hennar því sólin hefur farið frekar illum höndum um brúnirnar sem eru orðnar músagráar.
Þangað til næst............amma kveður á bleiku skýi.

19. júlí 2009

Austanvindur

Hverjum hefði dottið í hug að veðrið gæti verið svo slæmt hérna á þessum slóðum að fólk fer helst ekki út og það vegna sandstorms? Núna hefur austanvindur skollið á enn eina ferðina í 2 skiptið síðan ég kom hingað út. Mikill hiti og mikið rok, því fylgir auðvitað mikill sandur því við erum jú stödd í eyðimörk, hitinn fer upp í 30-35 gráður. Eflaust finnst einhverjum það ekki mikill hiti en trúið mér það er eins og stinga hausnum inn í bakarof með blæstri, hef reyndar ekki prufað það en get alveg ímyndað mér að það sé akkúrat svona eins og veðrið er núna. Undanfarna morgna hefur verið alveg hífandi rok en svo lægir, kvöldin eru best þá er alveg logn og hitinn aðeins í kringum 24°c sem er bara fínt fyrir eskimóa eins og mig.

Skruppum í gær í Swakopmund og var veðrið frekar slæmt framan af, mikið rok og mikill sandur sem skóf yfir veginn eins og sjá má á þessari mynd og var þetta frekar lítið!
Í Swakop var ekki mikið af fólki þegar við komum þangað, vegna veðurs. Bara léttgeggjaðir túristar eins og ég að ráfa á milli búða. Er búin að gera smá könnun á túristafatnaði hérna í WB og svo Swakop hins vegar, mun dýrara í Swakop enda er túristinn þar allsráðandi sem hann er ekki hérna. Úrvalið er líka miklu betra í Swakop og stefni ég á verslunarferð þangað ef ég fer ekki í höfuðborgina áður en ég fer heim. Einnig tókum við rúnt meðfram sjónum og húsin þar eru sko þvílíkt flott að held að ég gæti ekki lýst þessu nógu vel, húsin heima sem auðkýfingar hafa verið að byggja sér eru nú bara hreysi í samanburði við hallirnar þarna.

Ætli strandferð með örverpið verði ekki ofan á í dag, henni langar alltaf svo á stöndina og núna er akkúrat veðrið til þess, ég tek bara með mér sólhlíf og bók þá er ég góð.

Þangað til næst..........amma kveður úr roki, hita og svita.

p.s. Það eru komnar fleiri myndir inn á afríku linkinn.

5. júlí 2009

Á gömlum heimaslóðum

Ákáðum að fara til Lüderitz sl.miðvikudag, við keyrðum í gegnum eyðimörkina og gistum í Maltahöhe. Við áttum góðar stundir á leiðinni, sáum fullt af dýrum, Strúta með unga, Kudukýr með kálfa, apa með unga og síðast en ekki síst sáum við Cheetah – veit ekki hvað það heitir á íslensku. Skyndilega sá ég eitthvað á veginum og Ásgeir hægði á sér, hrikalega var hún flott þar sem hún skokkaði á undan okkur, auðvitað varð uppi fótur og fit í bílnum að ná mynd af dýrinu, myndavélin föst í töskunni og dýrið komið út í kant í grasið þar sem það laggðist niður, en ég fann það og vonandi sést eitthvað í það þegar við setjum myndirnar inn. Guðrún var sérlega ánægð með öll þessi dýr og ekki skemmdi fyrir að hún sá líka fjölskyldu ferðast um á asnakerru. Eyðimörkin er grasi gróin langleiðina niður til Lüderitz, mjög sérkennilegt að sjá hana svona grösuga. Við komum aðeins við í Aus og svei mér þá ef það krummaskuð hefur ekki stækkað – afsakið orðbragðið. Það er búið aðendurbyggja hótelið og ætluðum við bara ekki að þekkja það. Það kviknaði í því fyrir nokkrum árum en það var ekki fyrr en fyrir 3 árum sem það var endurbyggt og nú er það orðið stórglæsileg bygging. Að koma til Luderitz var svolítið sérstakt, sumt hefur breyst og annað ekki. Niður í bæ er komið Waterfront og er það greinilega mikil lyftistöng fyrir bæinn því þangað streyma túristarnir. Við röltum þarna um og hittum gamalkunnan þjón sem hafði verið að vinna á Strand en fór svo að vinna á Zum hótelinu, mikið var ég hissa að hann skildi þekkja okkur eftir öll þessi ár – 12. Við fórum svo með Ásgeiri út að Seaflower frystihúsinu og þar var verkafólkið að fara heim og einn og einn þekkti Ásgeir, það var mjög gaman að sjá hvað fólkið var hissa að sjá hann, hittum Michale og var hann einnig mjög undrandi, við vorum fyrr um daginn búin að fara heim til hans og ætluðum að fá fréttir af Perlu, en hún er hundurinn sem við áttum hérna úti og hann fékk hana þegar við fórum. Það eru mörg ár síðan Perla dó sagði konan hans okkur, ekki svosem hægt að segja neitt við því enda hundurinn örugglega orðin fjörgamall þegar hún fór. Kínverjar hafa haldið innreið sína hingað eins og alls staðar í Namibíu, mér finnst það bara ekki passa að sjá búðir sem eru kínverskar í landi sem þessu, en ætli þeir séu ekki með betri vinum Namibíu ef út í það er farið! Við hittum Hester vinkonu okkar og varð mikill fagnaðarfundur að hitta hana bara sísvona út á götu. Við fórum með henni og manni hennar út að borða á föstudagskvöldinu og þar hittum við fyrir önnur gömulkunn andlit – Lúffí og konuna hans. Úr varð alveg svakalega skemmtilegt kvöld og minnti á gamla tíma í Lüderitz 
Heimleiðina tókum við hinu megin við þá leið sem við fórum samt í gegnum eyðimörkina og var hún mun flottari en hefðbundna eyðimerkuleiðin, kannski seinfarnari en MIKLU fallegri. Lentum í ofsalegu fallegu sólsetri 100 km áður en við komum til WB og mikið var nú gott að koma „heim“ og leggjast í sitt lélega rúm. Gæðin kannski ekki ofarlega hérna en maður lætur sig hafa það.
Hef tekið þá stóru ákvörðun að sjá um þvottinn minn sjálf á meðan ég er hérna, grey konan kann bara ekkert með þvott að fara og ekki er hægt að segja henni til því hún talar enga ensku. Ég er eflaust eitthvað skrítin að vilja sjá um þetta sjálf en þessari ákvörðun verður bara ekki haggað sama hvað aðrir segja um það hvað ég hef það gott að hafa einhvern til að sjá um þvottinn sem er nú ekki það leiðinlegasta í heimilishaldi, hún má skrúbba tojlettið eins og fjandin sé á hælunum á henni en þvottinn minn þvæ ég sjálf!
Setti inn myndir í nýtt myndaalbúm sem er undir Africa, vona að þið eigið góðar stundir við að skoða þessar myndir og endilega kvittið nú fyrir komu ykkar á heimasíðuna.
Þangað til næst.....amma kveður úr hita og svita í Walvis Bay.