18. janúar 2010

BMW að hætti Damara

Heyrði sögu í hádeginu af Damara fjölskyldu sem átti BMW. Bíllinn var vélarlaus á fjórum hjólum með topplúgu, en það kom ekki að sök, þau öttu fyrir 4 ösnum sem voru samsíða þannig að ekki var hægt að fara í gegnum hlið á eðalgrippnum. Sá er sagði söguna spurði karlinn af hverju hann hefði ekki 2 tvíeyki, það gengur ekki upp því þá er annað asna parið latara og lætur hina draga sig áfram.
Aksturinn fór þannig fram að taumarnir voru settir í gegnum framrúðuna og þar sat kerlingin í framsætinu farþegameginn og stjórnaði ösnunum og karlinn hélt um stýrið á Bimmanum og stýrði og bremsaði. Svo var aftursætið hlaðið af krökkum eins og gengur. Mikið hefði ég viljað sjá þetta, en svona getur maður átt von á að sjá hérna þegar maður ferðast um þjóðvegina. Þessi bimmi var þá ca 4 asnaöfl.

10. janúar 2010

Lifa af litlu

Fórum í dag uppí Kusieb river sem er um 30 km héða úr W.B. Þarna er byggð með fólki sem menn hér kalla "river people". Ekki veit ég um ættfræðina en mér sýndist fólkið vera svipað útlítandi og Namar, Bush menn og Hottintottar sem eru af ættstofni San.
Þarna er fólkið að draga fram lífið af rótum og því sem hægt er að skrapa samann, en þetta fólk hefur gert það í aldir og spjarað sig. Þetta er ekki fyrir hvern sem er og sagt er að San fólkið hafi flúið undan svertingjunum og haldið á svæði þar sem þeir gátu ekki dregið fram lífið.
Nú hefur stofnun sem er kennd við Bastos gefið þessu fólki mjög einfaldar kamínur sem voru fluttar frá Brasilíu hingað og hafa þær gert þessu fólki lífið auðveldara. Áður en þau fengu kamínurnar þá þurftu þau að verja töluverðum tíma í að safna nægum sprekum til að halda yl á kofunum á veturnar og til eldunar. Þá er meiri tími til annara hluta sem vonandi verður ekki notaðu til að drekka brugg (tombó).
Það kom á óvart hvað það er fallegt þarna. Þannig hagar til að sandöldurnar ná að ánni sem er neðanjarðar og í árfarveginum eru tré og sæmilega stór og blómleg auk annars gróðurs. Það gerist með löngu millibili að áin nái til sjávar og það gerðist í fyrra.