23. júní 2009

Þvottaóð vinnukona.

Lífið í Walvis Bay er afskaplega ljúft eða svona næstum því. Í morgun þegar ég vaknaði sá ég að öll fötin mín – þau fáu sem ég hafði voru horfin (taskan ekki komin) og ég ekki orðið vör við neinn umgang. Þaut fram og tók þá eftir því að vinnukonan var komin, kíkti inn í þvottahúsið/bílskúrinn og viti menn þar stóð konan við þvottavélina og á gólfinu lá hluti af þeim fáu flíkum sem ég var með, ég reif þau upp og dustaði af því og leit svo illskulegum augum á konuna, hún hafði nefnilega sett brjóstarhaldarann minn í þvottavélina og eina bolinn minn. Nú hvað átti ég nú að gera, ekki gat ég gengið um bæinn í gallapilsi og ber að ofan, datt þá í hug að ég gæti nú sennilega farið í flíspeysuna mína sem ég var svo lánsöm að setja ofan í bakpokann minn heima á Íslandi og nú tók við leit að peysunni, ég var nokkuð viss um að ég hafði sett hana á eldhússtólinn í gærkveldi – og enn og aftur fékk konan illt augnaráð, hún var nefnilega líka að þvo flíspeysuna mína, hefur bara hirt öll föt sem hún fann og stungið þeim í þvottavélina! Þegar ég kíkti inn í fataskápinn þá sá ég að ég hafði líka komið með gráa kjólinn minn í bakpokanum, skil ekki hvað fékk mig til að setja þessar flíkur í bakpokann frekar en í ferðatöskuna, sennilega hef ég ekki nennt að opna lásinn og auðveldara að setja þetta í bakpokann, nú ég fór í kjólinn og leið frekar illa svona án haldarans en ég gat þó farið í bæinn skammlaust. Ef við hefðum ekki verið búnar að ákveða að fara á kaffihús og hitta íslenska konu þá hefði þetta ekki verið svona mikið mál hjá mér. Vinnukonan kom svo til Tamöru og spurði hana hvort ég væri ennþá reið út í hana? Hún hefur örugglega fengið hálfgert sjokk konu greyið þegar ég kom strunsandi að ná í fötin mín.
Í kvöld er ég svo að fara í keilu, á þriðjudögum er konukvöld. Það verður spennandi að sjá hvernig þetta fer fram því ég held að þetta sé ekki alveg eins og á Íslandi.
Þangað til næst..............amma kveðjur.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

dísess kræst mamma ég sé alveg sviðinn á þér sem þú hefur gefið grayið konunni, vertu nú ekki vond við hana, hún er bara að reyna að gera g´ðverk og ekki einu sinni það hún er bara að sinna vinnunni sinni... það er nú ekki sjálfsagt í landi sem þú ert stödd í kona góð ;O)
Hafið það gott.
Kv.
Eva.

Nafnlaus sagði...

já ég er alveag sammála Evu, hvað meinaru að setja greyið konuna í þessa stöðu þegar hún er bara að sýna dugnað í verki, mér verður bara hugsa til e-h bíó myndar þar sem söguþráðurinn fjallar um svarta vinnukonu sem vinnur á heimili þar sem hvíta konan "bresk leiðindar kelling á þriðja áratugnum" er algjört skass við vunnukonuna og pælir of mikið í veraldlegum eigum sínum og skeytir ekkert um mannlegar tilfinningar.

farðu bara og keyptu þér nýjann haldara og mundu að þú hefur það miklu betur en hún

Nafnlaus sagði...

Þessi var góð. Ég hefði viljað sjá svipin á þér leita að fötunum. Þú ert ekki alveg sú manngerð sem ferð út á júllunum. Þú kannt nú ekki gott að meta að hafa þvottaóða vinnukonu í sumarfríinu, ég veræi sko til í það. kv. Þórunn