4. mars 2008

Furðulegur köttu


Á heimilinu er köttur, dóttir mín fékk hann þegar hún var 8 ára og var ofsalega glöð yfir því að LOKSINS ætti hún gæludýr! Það var sem sagt aðalmálið að eignast gæludýr, pabbi hennar var búinn að bjóða henni gullfiska en henni fannst það ekki vera gæludýr. Nú þessi köttur hefur verið hérna á heimilinu sumum til gleði en öðrum til ama. Þetta er svona inni köttur sem fær bara að fara út á svalir þegar það er gott veður, hún leikur listir sínar á handriðinu við litla hrifningu eigandans, fyrst þegar kötturinn fór í þessa loftfimleika sína þá hélt ég að dóttirin mundi missa málið, henni brá svo rosalega að hún kom ekki upp orði, núna erum við orðnar aðeins vanari þessum fimleikum. Fyrir þá sem ekki vita þá búum við upp á 4 hæð í blokk, þannig að þetta væri töluvert fall fyrir köttinn ef hann færi fram af.

Nú þessi köttur hefur verið alinn upp á kókópuffsi eins og pabbi eigandans kallar þurrfóðrið hennar, hún vill ekki harðfisk né soðin fisk, bara rækjur og humar. Henni finnst þeyttur rjómi ekki góður, hins vegar er hún ÓÐ í ólívur, aspas og bjór. Já ég sagði BJÓR, hef reyndar bara prufað að hella smá í lófann á mér og hún lepur það upp með græðgi, þori ekki að gefa henni mikið vil ekki hafa fullan kött í íbúðinni hann er nú nógu klikkaður fyrir.

Á kvöldin er það hans mesta skemmtun að bíða eftir eigandanum sínum á meðan hún er að bursta tennurnar, þá fer hann í einn stólinn í stofunni og hoppar svo í átt að henni þegar hún kemur fram, auðvitað skrækir barnið því henni bregður svo, sama þó kötturinn geri þetta kvöld eftir kvöld.

Þegar einn tiltekin gestur kemur í heimsókn til okkar þá fær kötturinn alltaf kast, snuðrar í fötunum hennar, nagar hárið á henni með mikilli áfergju og kemst í þvílíkan ham að annað eins hefur ekki sést, og ef gesturinn kemur með tösku eða bakpoka þá ræðst hún líka á það. Þetta undarlega hátterni kattarins er bara hægt að rekja til þess að þessi aðili kemur frá heimili þar sem móðir kattarins býr.

Þangað til næst........amma kveður.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gríma er BARA snillingur! Hvar væruði án hennar?

Nafnlaus sagði...

æjh þessi var nú fyndin... þessi köttur sko
Berglind