29. apríl 2007

Hjóladellur...........

Fólk er með mismunandi dellur.

Sumir fá sér reiðhjól aðrir mótorhjól og sumir vespur.
Litla systir mín í Svíþjóð fékk sér 1 stk vespu í vor, ég hef ekki frétt af henni síðan. Spurning hvort hún sé ennþá að þeysast um sænskar grundir skríkjandi af gleði eða hvort hún hafi orðið svo hrædd að hún hefur misst málið!!!

Svo eru það sumir sem fá sér þessa týpu.
Eins og maðurinn minn gerði, nema núna er hjólið ef hjól skyldi kalla í mörgum pörtum út í bílskúr. Varahlutirnir eru komnir frá USA, en það vantar eina skrúfu og þá er allt stopp. Greyið hann sér ekkert nema mótorhjól hvert sem hann fer, fórum í smá bíltúr í dag og það eina sem hann sá voru mótorhjól! Vonandi fer nú að komast lag á "hjólið" svo hann getur farið að þeysast um íslenskar grundir áður en það kemur vetur.
Nú svo eru það þeir sem eru nægjusamir og láta sér nægja venjuleg reiðhjól.
Ég á eitt slíkt og kemst ég um allt á því innanbæjar sem ég vil. Hérna á höfuðborgarsvæðinu eru svo góðir reiðhjólastígar að það er minnsta mál að fara úr Kópavogi og þess vegna út á Seltjarnarnes á góðum degi.
Eitt er voðalega skrítið og það er verðlagning á reiðhjólum á Íslandi, hef verið að kanna þetta aðeins því ég ætla að gefa yngsta afkvæminu reiðhjól í afmælisgjöf og get ég keypt fínt hjól í gegnum www.shopusa.is fyrir 15.000 íslenkar krónur hingað komið. Er ekki alveg að skilja hvers vegna þetta þarf að vera svona dýrt hérna á skerinu. Kannski af því að það er í tísku að hjóla, hvort sem það er með mótor eða bara notað fótaflið, spurning!

Svona í lokin þá læt ég fylgja með mynd af ekta hippa á ekta hippahjóli, þeir gerast nú varla flottari á áttræðisaldri!

13. apríl 2007

Grænt og gleðifréttir!

Svei mér þá ef það er bara ekki að koma vor hérna á hjara veraldar, það er nú reyndar ekkert vorlegt úti, rok og rigning en í gær sá ég að sumstaðar er að koma grænt gras!

Gleðifrétt dagsins er sú að varahlutirnir í hjólið eru komnir í hendurnar á Berglindi frænku sem kemur til landsins á þriðjudaginn. Ég kem þá sennilega ekki til með að sjá mikið af mínum manni fram eftir vori nema ég skreppi í skúrinn.
Og áfram með gleðifréttirnar, einungis 8 vikur eru eftir af skólastarfinu, fengum vægt áfall á kaffistofunni í morgun þegar við vorum að uppgvötva þetta, og það er fullt af frídögum sem koma inn í vikurnar þannig að það eru ekki nema 3 heilar vikur, já tíminn flýgur alveg ótrúlega hratt.
Verð komin út til USA áður en ég veit af.......................

Þangað til næst............amma kveður.

8. apríl 2007

Hjólið bilað

Fyrir rúmum mánuði er ég var að prófa nokkra ísnagla sem ég hafði skrúfað í dekkið þá gerðist það sem maður óttast mest, það heyrðist smellur í mótor og ég var stopp, en Pétur vinur minn kom sem fyrri daginn og reddaði mér heim. Það var svo ekki fyrr en fyrir nokkrum dögum að ég hafði skap í mér að rífa mótorinn og skoða hversu slæmt tjónið væri, og það var slæmt. Tímakeðjan slitinn (í fjórum hlutum) keðjustrekkjarinn og strýringar í molum brotnir boltar, svarf um allt og bognir ventlar.
Til að vera viss um að allt verði í lagi var mér ráðlagt að rífa allan mótorinn og skipta um legur og hringi, og þá fer nú varahlutalistinn að lengast. Minnugur þess að hafa keypt varahluti í KTM á íslandi og komist að því að þeir kostuðu mikið meira heldur en hægt er að fá þá á netinu ákvað ég að gera tilraun til að kaupa beint hjá KTM world sem eru staddir í Georgíu og fá pakkann með Þórunni þegar hún kemur heim. Að panta gekk vel og ég greiddi með Visa en ekki paypal og vona að ég hafi ekki tekið of mikla áhættu með því. Gott væri að fá álit á þessu.
Björtustu vonir eru að það takist að koma þessu saman um miðjan maí.
Þetta er mikil áskorun fyrir mig þar sem ég hef aldrei rifið mótor svona gjörsamlega í spað einn heldur bara með öðrum og það eru 30 ár síðan. Bara vonandi að getan sé í samræmi við kjarkinn.

1. apríl 2007

Sætust

Myndirnar segja nú bara allt sem segja þarf!