19. október 2007

Útlönd

Nú fer að styttast í það að við stelpurnar og Vilhelm Leví förum til Svíþjóðar í heimsókn til múttu. Þetta verður sannkölluð stelpuferð, Vilhelm fær að fljóta með því hann er svo lítill. En við förum sem sagt út fimmtudaginn 25. október og komum heim á sunnudagskvöldinu 28. okt. Þetta er ekki langur túr hjá okkur en samt ágæt að skreppa og kíkja á fjölskylduna sem maður á austan við mig. Það er svona þegar fólkið manns á heima erlendis þá verður maður stundum að heimsækja það. Ég ætla að taka bílaleigubíl í DK, vona að ég komist út úr Köben :-) aldrei keyrt þarna. Svo er stóra málið að fara yfir brúna - þeir sem þekkja mig rosalega vel vita hvað ég hata brýr, svo það verður hjartsláttur og sviti í lófum þegar ég keyri þar yfir. Er búin að senda fyrirspurn á vinkonu mína sem á fínan garmin hvort hún vilji ekki lána mér hann, það væri auðvitað bara snilld ef hún segir "já já elsku vinkona þú mátt fá hann lánaðan".

Litla systir sem býr í Sverige er að byggja við húsið sitt og það verður rosalega spennandi að sjá slotið. Ég ætla rétt að vona að músin sem beit í sundur rafmagnssnúruna að þvottavélinni hennar sé farin til guðs með sitt krullaða hár. Veit ekkert ógeðslegra en mús á vappi inn í hýbýlum.

Þangað til næst.............amma kveður.

8. október 2007

Sætastur...............

Þessi litli snúlli kom í heimsókn til ömmu og afa í Funalind á laugardaginn og fékk vöfflur með súkkulaði, sem honum þótti ekki slæmt. Hann eltist við kisu enda farinn að labba út um allt og svo segir hann bara tiiisa, hann var svo góður við Grímu vildi kyssa hana og var hún fljót að nota tækifærið og þefa út úr honum þegar hann opnaði munninn, bara sætt. Hann er ekki að rífa í hana heldur potar hann bara pent í hana, tiiisa tiisa.

17. september 2007

Ligga ligga lá

Ég er komin með passa, ligga ligga lá, fer í sendiráðið á eftir og næ í hann.
Þannig að nú er ég komin með 2 ríkisföng og get flutt til fyrirheitnalandsins þegar mér hentar án þess að spyrja Bush eða nokkurn annan runna að því.

Þangað til næst...............amma kveður.

5. september 2007

Margt búið að gerast

Ýmislegt hefur sko á daga mína drifið síðan ég ritaði hérna inn síðast. Nú ég byrjaði í nýrri vinnu 13. ágúst, mér var boðin vinna við bókhald hjá góður fyrirtæki út í bæ. Ekki það að ég hafi verið að leita mér að vinnu, var bara þokkalega ánægð í skólanum nema rétt um hver mánaðarmót þegar launin komu inn þá fékk ég vægt til orða tekið nett áfall sem var svo alltaf búið að jafna sig þegar að næstu mánaðarmótum kom. Og er það nú aðalástæðan að ég skipti um vinnu, sakna nú samt fólksins í skólanum þau eru svo hress, er samt ekki að meina að fólkið á nýja staðnum sé það ekki heldur, á bara eftir að kynnast því betur. Ég var sem sagt í tveimum vinnum í 2 vikur og vá þvílík klikkun, þetta geri ég aldrei aftur, var við það að fara á KLEPP!!
Nú svo er hitt málið sem er eiginlega aðalmálið. Ég fékk pappírana undirritaða frá föður mínum yndislegum, tók smá tíma að fá hann til að skilja rétt minn í þessu máli, þ.e.a.s. gerast amerískur ríkisborgari. Er búin að gera margar tilraunir, hringja, senda honum póst og reyna að heimsækja hann, ekki það að hann eigi heima í næsta bæ, neinei karlinn býr í Flórída, ekki beint ódýrt að heimsækja hann. En eníveis þá komu þeir (pappírarnir) núna í ágúst og nú er ég búin að leggja þá inn hjá ameríska sendiráðinu með mynd sem by the way er ömurleg 5x5 og snúa beint fram eins og konan sagði og engin svipbrigði takk fyrir. Gæti verið gott innlegg í sakbendingu hjá CSI New York.
Hef leyfi til að sletta til helminga ef þetta fer í pirrurnar á ykkur, er nefnilega hálfur kani!

Þangað til næst..........amma kveður.


17. ágúst 2007

Tónleikar

Skelltum okkur í kvöld á tónleika sem voru í boði Kaupþings, engin blankheit hjá þessum bönkum. Landsbankinn býður til veislu á morgun, svo það er nóg að gera í tónleikabransanum þessa helgina.

Komum þegar SSSÓL var að byrja og auðvitað var Helgi í banastuði, hoppandi og skoppandi um allt svið, fór meira að segja að klifra í grind sem var þarna, hef nú aldrei fundist hann flottur en hann getur sungið. Svo komu LUXOR drengirnir hans Einars Bárða, jú jú þeir eiga eflaust eftir að gera góða hluti, var samt ekki að fíla þá frekar en NILON sem komu á eftir þe
im. MUGISON kom mest á óvart, helv... var maðurinn góður, er sko að fíla hann í ræmur, svolítið þungt hjá honum en hann er FLOTTUR. TODMOBIL standa alltaf fyrir sínu, hress og kraftmikið fólk sem kann sitt fag. GARÐAR THOR kom líka fram, hann er fínn en mér fannst hann bara ekki passa þarna inn á milli rokkarana. BUBBI er alltaf, ALLTAF FLOTTUR, skil ekkert í karlinum að fíla hann ekki.
Nú rúsínan í pylsuendanum voru STUÐMENN, jú jú þeir komu en dísusss, eru þeir gjörsamlega búnir að skíta á bitann? Voru með 3 hljómborð og trommara sem var örugglega að drepast úr kulda í stuttbuxum og langsokkum, það vantar ekki að þeir eru alltaf í furðulegum búningum, það var sennilega það eina ágæta við þá í kvöld. Ætli þeir geti ekkert án söngkonu? Reyndu svo að hressa þetta aðeins við með þvi að láta BO Hall koma fram í skotapilsi, halló how low can you go???? Þeir stóðu ekki undir nafni í kvöld, og er ég örugglega ekki ein um þessa skoðun.

En þetta var samt alveg stórglæsilegt hjá Kaupþingi, þeir fluttu inn gólf til að leggja á fótboltavöllinn því ekki má hann eyðileggjast, risa skjár var settur upp og svo auðvitað var svakalegt hljóðkerfi. Ég má ekki gleyma veislustjóra kvöldsins honum PÁLI ÓSKARI, hann er ótrúlega góður gæi og stóð sig frábærlega vel, kann þetta sko alveg.

Verð nú bara að segja takk fyrir mig Kaupþing.

Svo er að sjá hvernig til tekst á morgun hjá Landsbankanum og Rás 2, en þá verða tónleikar á Miklatúni annað kvöld með fullt af tónlistarfólki, samt ekki sama fólki og var að spila í kvöld. Ætli maður skelli sér ekki í bæinn og hlýði á Eivör Páls, Ampop og fleiri flytjendur sem ég hef ekki mikið verið að hlusta á.

Þangað til næst............amma kveður.

17. júlí 2007

Nýjar myndir

Var að setja inn nýjar myndir frá Ameríku, endilega kíkið.

13. júlí 2007

Komin heim

Hérna býr frænkaMorgunverður snæddur í Central ParkEða var það kannski hérna sem frænka býr?
Kíktum í fiðrildagarðinnFórum í siglingu

Já við erum bara komin heim úr sælunni í Ameríku. Ferðin var aldeilis frábær, nenni ekki að setja inn ferðasöguna en set nokkrar myndir í staðinn. Við erum ennþá í fríi, karlinn fór í veiði um helgina og mokveiddi, veit ekki alveg hvað við eigum að gera við allan þennan fisk. Kannski ég fari bara með hann í reykingu. Litla fjölskyldan í Flúðaselinu kom heim frá Danmörku í síðustu viku þar var bara rigning og leiðindaveður. Ömurlegt að fara til útlanda og fá leiðinlegt veður.

Þarf að rjúka til sjúkraþjálfarans því öxlin er ennþá aum.

Skrifa meira seinna, þangað til næst...........amma kveður.