12. febrúar 2007

Hestar og hestaferðir

Ég var svo ljónheppin um daginn að það hringdi í mig góð kona og spurði hvort ég vildi aðstoða hana í hesthúsinu og fara með henni á hestbak þegar veður er gott. Ég hélt það nú, enda eru hestar eitt af mínum uppáhaldsdýrum, sitja í efsta sæti ásamt hundum. Verst að eiginmaðurinn er ekkert gefinn fyrir hesta, vill bara fá sín hestöfl úr mótorhjólinu, og ekki vil ég þeysast um landið á vélfáki. Ég er ekki ennþá búin að fara í útreiðatúr en það gerist vonandi í þessari viku. Ég hef aldrei umgengist hesta í hesthúsi svo ég þarf aðeins að venjast þeim þar og þeir að venjast mér. Svo er ég nú ekki komin svo langt að geta kembt þeim, en ég moka, gef og næ í þá út í gerði.
Svo vorum við vinkonurnar að ákveða að fara í Valkyrjuferð í sumar, íííííííhhhhhhhhaaaaaaaaa.
Það verður bara gaman!!!

Get eiginlega ekki beðið eftir sumrinu, ég ætla að gera svo margt. Fara í frí til Lindu frænku sem býr í Ameríku, passa Vilhelm, fara í hestaferð/ir og svo vona ég að við förum í útilegur og veiðiferðir eins og öll önnur sumur.

Flensan hefur sem betur fer ekki ennþá stungið sér niður á heimilið 7-9-13. En litla prinsessan mín er komin með hálsbólgu og kvef en samt ekki með hita. Hún svaf voða lítið í nótt var alltaf að fara á klósettið því henni var svo flökurt.
Við vorum því bara heima i dag, en mætum vonandi galvaskar út í lífið á morgun.

Þangað til næst...............amma kveður.




4. febrúar 2007

Fluttningar

Þá er litla fjölskyldan flutt og er alveg hrikalega tómlegt hérna hjá okkur. Það er nú ekki eins og við séum bara 2 eftir, nei því er nú öðru nær, við erum 6 eftir á heimilinu og er Gríma the cat þá talin með! Ég er alveg viss um að kötturinn saknar þeirra líka, hún ráfar hérna um og er eflaust að leita að bælinu sínu sem hún hélt að hún ætti í dótinu hans Vilhelms.

Svo eru nokkrir dagar í að Matti tali bani komi heim frá Afganistan, og er hans dvöl þar þá lokið. Mikið held ég að Þórunn verði glöð að fá hann heim, og ég gæti sko trúað að mamma taki villtan stríðsdans að hætti Indjána! Sjái þið hana ekki í anda taka sporinn á stofugólfinu :-) Látið mig vita ef það verður rigning í svíaríki um næstu helgi!

Er byrjuð í fjarnámi aftur eftir jólafrí, núna ætla ég að glíma við ísl. 202, hlakka til að takast á við verkefnin sem bíða mín þar. Tók Siðfræði 102 fyrir áramót, og náði áfanganum með sóma, sem betur fer, því þetta var drepleiðinlegur áfangi og hefði sko ekki nennt að taka hann aftur! Stefni á að fara í nuddnám og þarf ég að taka slatta af einingum til að eiga möguleika á að komast þar inn. En ég stefni nú ekki á þetta með hraði, heldur verð ég mjög ánægð ef ég gæti verið orðin nuddari um árið 2012.
Og þessi skrif mín núna minna mig á það að ég á eftir að ljúka við að lesa smásöguna um son snillingsins, og því ætla ég að hætta þessu bulli núna og snúa mér að lestri hennar.

Þangað til næst..........amma kveður.